Körfuknattleiksdeild KR hefur gengið frá samningi við hinn þrítuga Nimrod Hillard, bandarískan bakvörð. Kemur hann í staðinn fyrir Troy Cracknell sem yfirgaf félagið á dögunum.
Hillard á að baki mjög flottan feril í Evrópu, þar sem hann hefur orðið danskur meistari með Horsens og leikið í efstu deildum Svíþjóðar, Þýskalands, Ungverjalands og Kýpur.
Hefur hann bæði verið valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins í danska körfuboltanum og besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar.
Hilliard þekkir vel til þjálfarateymis KR-inga, því hann lék með aðalþjálfaranum Jakobi Erni Sigurðarsyni hjá Borås í Svíþjóð og aðstoðarþjálfaranum Adama Darboe með Bakken Bears í Danmörku.
KR er í fjórða sæti 1. deildarinnar með 16 stig, eins og Sindri og Fjölnir, tveimur stigum á eftir ÍR sem er í toppsætinu.