Settur í ævilangt bann fyrir kynþáttaníð

Friðar- og vináttuhöllin í Pireus er heimavöllur Olympiacos.
Friðar- og vináttuhöllin í Pireus er heimavöllur Olympiacos.

Stuðningsmaður gríska körfuknattleiksliðsins Olympiacos hefur verið settur í lífstíðarbann frá heimaleikjum liðsins eftir að hafa viðhaft kynþáttaníð í garð dómara í leik liðsins gegn Martin Hermannssyni og félögum í spænska liðinu Valencia þegar liðin mættust í Euroleague í fyrrakvöld.

Þegar 26 sekúndur voru eftir af leiknum, sem Martin og félagar unnu 63:56, stöðvaði dómarinn leikinn og gekk að ritaraborðinu. Samkvæmt gríska netmiðlinum Gazzetta.gr óskaði hann eftir því að á leikskýrsluna yrði skráð að hrópað hefði verið til sín: „Go f-- yourself black monkey."

Olympiacos brást strax við atvikinu með því að setja af stað leit að sökudólgnum og tilkynnti um það bil tveimur tímum eftir leik að hann væri fundinn, ársmiði hans hefði verið ógiltur og hann hefði verið settur í lífstíðarbann frá heimavelli félagsins.

Olympiacos má eftir sem áður reikna með því að þurfa að leika næstu heimaleiki í keppninni án áhorfenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka