Grikkinn Giannis Antetokounmpo lék frábærlega fyrir Milwaukee Bucks þegar liðið hafði betur gegn Houston Rockets, 128:119, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Gríska undrið var með tröllatvennu þegar hann skoraði 26 stig og tók 17 fráköst.
Antetokounmpo er nú orðinn stigahæsti leikmaður í sögu liðsins þar sem hann komst upp fyrir goðsögnina Kareem Abdul-Jabbar á þeim lista í nótt.
Senunni stal hins vegar liðsfélagi Grikkjans, Damian Lillard. Hann var langstigahæstur í leiknum með 39 stig og gaf auk þess 11 stoðsendingar.
Milwaukee hefur unnið 19 af 26 leikjum sínum í NBA-deildinni á tímabilinu.
Boston Celtics lenti ekki í miklum vandræðum með Orlando Magic og vann 114:97.
Jaylen Brown var stigahæstur í liði Boston með 31 stig og tók hann auk þess fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Stigahæstur í leiknum var hins vegar Paolo Banchero, sem skoraði 36 stig og tók tíu fráköst fyrir Orlando.
Öll úrslit næturinnar:
Milwaukee – Houston 128:119
Boston – Orlando 114:97
San Antonio – New Orleans 110:146
Phoenix – Washington 112:108
Portland – Golden State 114:118