Sara og Elvar valin best

Sara Rún Hinriksdóttir og Elvar Már Friðriksson.
Sara Rún Hinriksdóttir og Elvar Már Friðriksson. Ljósmynd/KKÍ

Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Cadi La Seu á Spáni, og Elvar Már Friðriksson, leikmaður PAOK í Grikklandi, hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2023 af KKÍ.

Körfuknattleikskona og -karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum. Bæði voru þau ríkjandi körfuknattleikskarl og -kona síðasta árs.

Elvar Már er nú að fá tilnefninguna í þriðja sinn og Sara Rún er að hljóta nafnbótina í fjórða sinn og fjórða árið í röð. Níu karlar fengu atkvæði og ellefu konur. 

Sara Rún Hinriksdóttir hafnaði í efsta sæti, Thelma Dís Ágústsdóttir hjá Keflavík í öðru sæti og Isabella Ósk Sigurðardóttir hjá Panserraikos í Grikklandi í því þriðja.

Aðrar sem fengu atkvæði voru: Ásta Júlía Grímsdóttir, Birna Valgerður Benónýsdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir, Ísold Sævarsdóttir, Jana Falsdóttir, Tinna Guðrún Alexandersdsóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir.

Í umsögn KKÍ um Söru Rún segir:

„Sara Rún er „Körfuknattleikskona ársins“ árið 2023 fjórða árið í röð. Sara Rún sem er uppalin með Keflavík, lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum samhliða námi áður en hún lék eitt tímabil með Haukum hér heima. Hún hefur síðan leikið með liðum í Rúmeníu og á Ítalíu við góðan orðstír. Sara Rún átti gott tímabil í fyrra með liði sínu á Ítalíu, Faenza Basket Project í Serie A. Þar var Sara Rún í veigamiklu hlutverki og frammistaða hennar varð til þessa að hún gerði samning við lið Cadi La Seu sem leikur í efstu deild á Spáni, en liðið keppir einni einnig í FIBA EuroCup Women. Sara Rún átti við smávægileg meiðsl að stríða í upphafi tímabils sem varð til þess að hún var fjarverandi með landsliðinu í nóvember í fyrstu leikjunum liðsins í undankeppni EM kvenna 2025, en hún er nú farin af stað með félagsliði sínu á Spáni og verður spennandi að sjá hvernig þeim vegnar á tímabilinu.

Sara Rún hefur verið burðarás íslenska kvennalandsliðsins að undanförnu og verið að leiða liðið að í hverjum leiknum á fætur öðrum í ýmsum tölfræðiþáttum og verið í stóru hlutverki í vörn og sókn. Hún og undirstrikaði það rækilega í fræknum sigri lok síðustu undankeppni gegn Rúmeníu, þar sem hún skoraði 33 stig og setti um leið íslenskt landsliðsmet leikmanns í einum leik í sögu KKÍ karla og kvenna landsliða. Sara Rún mun án efa vera áfram einn af burðarstoðum íslenska liðsins á komandi árum í ungu og efnilegu liði Íslands þar sem reynsla hennar mun skipta sköpum í komandi leikjum liðsins.“

Elvar bestur þriðja árið í röð

Hjá körlunum hafnaði Elvar Már í efsta sæti, Tryggvi Snær Hlinason hjá Bilbao í öðru sæti og Ægir Þór Steinarsson hjá Stjörnunni í því þriðja.

Aðrir sem fengu atkvæði voru: Hilmar Smári Henningsson, Jón Axel Guðmundsson, Kári Jónsson, Orri Gunnarsson, Pétur Rúnar Birgisson og Sigtryggur Arnar Björnsson.

Í umsögn KKÍ um Elvar Má segir:
„Elvar Már er að hljóta nafnbótina „Körfuknattleiksmaður ársins“ í þriðja sinn og þriðja árið í röð. Elvar Már lék virkilega vel á síðustu leiktíð fyrir stórlið Rytas Vilnius í Litháen en eftir tímabilið tryggði annað stórveldi sér starfskrafta hans fyrir komandi tímabil, PAOK í Grikklandi. Þar hefur Elvar stýrt leik þeirra með glæsibrag bæði í deild og í FIBA Basketball Championship League. Þar varð hann á dögunum einungis þriðji leikmaðurinn í sögu keppninnar, og sá fyrsti síðan 2017, til að ná tvöfaldri-þrennu í leik sem vakti athygli. Elvar Már hefur leikið mjög vel í síðustu leikjum og er einn af mikilvægustu leikmönnum síns liðs og hefur slegið í gegn hjá stuðningsmönnum PAOK. Elvar Már leiðir sitt lið bæði í stigum skoruðum og stoðsendingum þegar tveir leikir eru eftir af árinu og er í þriðja sæti yfir flestar stoðsendingar í grísku deildinni að auki.

Með íslenska landsliðinu hefur Elvar Már verið leiðtogi liðsins í gegnum langa forkeppni og undankeppni að HM 2023 sem lauk í febrúar og hefur hann tekið þátt í öllum leikjum liðsins á undanförnum árum fyrir utan einn leik vegna meiðsla og heilt yfir verið meðal bestu manna liðsins í hverju verkefninu á fætur öðru. Hann átti stóran þátt í því að koma liðinu inn í riðlakeppni HM og svo þaðan áfram í aðra umferð í þeirri keppni sem var stórt afrek. Elvar Már átti mjög góða leiki fyrir Ísland á árinu og var Elvar Már hreint óstöðvandi í sóknarleik Íslands sem gerði andstæðinga Íslands ráðþrota í hverjum leiknum á fætur öðrum. Elvar Már leiddi til að mynda alla undankeppni HM 2023 í stigum í leik með 186 stig eða 20.7 stig að meðaltali í níu leikjum og var annar heilt yfir með 89% vítanýtingu. Að öðrum leikmönnum ólöstuðum átti hann einna stærstan þátt í því að íslenska liðið var komið í tækifæri til að fara á HM og varð aðeins einu stigi frá því að fara alla leið á sjálft lokamót HM. Framundan eru leikir í undankeppni EM 2025 og þar mun Elvar Már vera sá sem liðið treystir á til að koma liðinu í þriðja sinn á EM, EuroBasket 2025.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka