Endurkoma Ja Morant í lið Memphis Grizzlies var draumi líkust þegar hann fór á kostum í sigri á New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfuknattleik, 115:113, og skoraði sigurkörfu sinna manna á lokasekúndunni.
Morant tók út 25 leikja bann sem NBA-deildin úrskurðaði hann í eftir að sást til bakvarðarins með byssu í myndskeiði á samfélagsmiðlum í annað sinn á stuttum tíma síðastliðið sumar.
Því var um fyrsta leik Morants að ræða á tímabilinu og er óhætt að segja að hann hafi notið sín í endurkomunni.
Skoraði Morant 34 stig, tók sex fráköst og gaf átta stoðsendingar ásamt því að stela boltanum tvisvar.
Mikilvægasta karfan kom í blálokin þegar 0,0 sekúndur voru eftir á leikklukkunni. Þá setti Morant niður sniðskot og tryggði Memphis frækinn sigur.
Brandon Ingram skoraði einnig 34 stig í liði New Orleans og gaf auk þess sex stoðsendingar.
Memphis hefur gengið illa á tímabilinu án Morants og var aðeins um sjöunda sigur liðsins í 26 leikjum að ræða.
Damian Lillard átti stórleik fyrir Milwaukee Bucks þegar liðið vann San Antonio Spurs, 132:119.
Lillard gerði sér lítið fyrir og skoraði 40 stig.
Keldon Johnson var stigahæstur hjá San Antonio með 28 stig og 12 fráköst.
Öll úrslit næturinnar:
New Orleans – Memphis 113:115
Milwaukee – San Antonio 132:119
Golden State – Boston 132:126 (frl.)
Portland – Phoenix 109:104