Njarðvík vann sinn fjórða sigur í röð í úrvalsdeild kvenna í körfubolta er liðið burstaði nýliða Þórs frá Akureyri á heimavelli sínum, 84:57.
Eru Njarðvíkingar því enn fjórum stigum á eftir toppliði Keflavíkur. Þór er áfram í fimmta sæti með 16 stig.
Njarðvík byrjaði mun betur og vann fyrsta leikhlutann 26:14. Þór sótti í sig veðrið í öðrum leikhluta og voru hálfleikstölur 39:31. Njarðvíkingar voru hins vegar mun sterkari í seinni hálfleik.
Hin danska Emilie Hesseldal skoraði 20 stig og tók 19 fráköst fyrir Njarðvík. Ena Viso bæti við öðrum 20 stigum og tók auk þess 16 fráköst. Hulda María Agnarsdóttir var næst með tíu stig.
Eva Wium Elíasdóttir skoraði 25 stig fyrir Þór og gaf sjö stoðsendingar að auki. Madison Sutton gerði 12 stig og tók 13 fráköst.