Valur og Þór frá Þorlákshöfn áttust við í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld og lauk leiknum með sigri Vals, 90:82, eftir æsispennandi leik. Eftir leikinn er lið Vals á toppi deildarinnar 18 stig en lið Þórs er í þriðja sætinu með 16 stig líkt og Keflavík sem er í öðru sæti.
Fyrsti leikhluti var mjög jafn en sjá mátti á báðum liðum að þau voru að koma úr löngu fríi frá keppni. Valsmenn settu fyrstu stig leiksins en það leið ekki á löngu þar til gestirnir náðu forystu og leiddu leikinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta 18:15 fyrir Þór.
Gestirnir úr Þorlákshöfn voru mun betri í byrjun annars leikhluta og náðu mest 11 stiga forskoti áður en leikmenn Vals fóru aftur í gang. Valsmenn náðu að minnka muninn niður í eitt stig í stöðunni 30:29 fyrir Þór. Þórsarar tóku þá aftur við sér og juku muninn aftur í 5 stig fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik 39:34 fyrir gestina.
Valsmenn byrjuðu þriðja leikhluta af miklum krafti og jöfnuðu leikinn í sínum fyrstu tveimur sóknum. Valsmenn komust síðan yfir í stöðunni 46:44 en þá jöfnuðu gestirnir og komust aftur yfir. Þannig gekk allur þriðji leikhlutinn sem var æsispennandi. Valsmenn jöfnuðu aftur í stöðunni 58:58 en gestirnir úr Þór náðu jafnóðum að komast yfir og leiddu eftir þriðja leikhluta 63:61.
Fjórði leikhlutinn var æsispennandi. Gestirnir juku muninn í fjögur stig en valsmenn minnkuðu muninn um hæl. Valur komst yfir í stöðunni 66:65 en Þór jafnaði í 69:69. Valsmönnum tókst aftur að komast yfir í stöðunni 70:69 og bættu síðan um betur og náðu þriggja stiga forystu í stöðunni 72:69 þegar 4 mínútur voru eftir.
Valsmenn voru ekki hættir því þeim tókst að auka muninn í 8 stig áður en gestirnir settu tvö stig úr vítaskotum. Það dugði ekki lengi því Valur jók muninn aftur í 8 stig í sókninni á eftir og aðeins 2 mínútur eftir af leiknum. Þór setti niður þriggja stiga körfu í næstu sókn og munurinn kominn niður í 5 stig. Það dugði þó ekki til því Valur landaði að lokum góðum sigri 90:82
Stigahæstur í liði Vals var Joshua Jefferson með 28 stig og Kristófer Acox með 16 stig. Í liði Þórs var Tómas Valur Þrastarson með 18 stig og Nigel Pruitt með 16 stig.