Njarðvík vann í kvöld 79:67-heimasigur á Val í lokaleik 16. umferðar úrvalsdeildar kvenna í körfubolta.
Með sigrinum fór Njarðvík upp í 26 stig og er nú aðeins tveimur stigum frá toppliði Keflavíkur. Valur er í sjöunda sæti með tólf stig.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 40:39, Val í vil, í hálfleik. Njarðvík var hins vegar mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik.
Njarðvíkingar unnu þriðja leikhlutann 20:15 og fjórða leikhlutann 20:12.
Danska landsliðskonan Emilie Hesseldal skoraði 28 stig og tók 15 fráköst fyrir Njarðvík. Selena Lott bætti við 23 stigum og tólf fráköstum.
Téa Adams skoraði 29 stig fyrir Val og Brooklyn Pannell gerði 14.