Þarf á hjartaígræðslu að halda

Scot Pollard varð NBA-meistari með Boston Celtics.
Scot Pollard varð NBA-meistari með Boston Celtics. Ljósmynd/8-Hype

Fyrrverandi körfuboltamaðurinn Scot Pollard þarf á nýju hjarta að halda. Dvelur hann nú á gjörgæslu á sjúkrahúsi og bíður upp á von og óvon eftir hjartaígræðslu.

Pollard, sem varð NBA-meistari með Boston Celtics árið 2008, er með arfgengan hjartasjúkdóm líkt og helmingur systkina sinna og faðir hans, sem lést aðeins 54 ára gamall þegar Pollard var 16 ára gamall.

AP fréttaveitan greinir frá því að hjarta Pollards, sem er 48 ára, slái mun örar en eðlilegt getur talist; 10.000 fleiri slög á hverjum degi samanborið við venjulegt hjarta.

Talið er að veirusýking sem hann fékk árið 2021 hafi valdið því að hjarta Pollards slái þetta ört.

Þörf fyrir stórt hjarta

Eins snúið og það er að gangast undir hjartaígræðslu yfir höfuð er það fleiri erfiðleikum háð í tilfelli hans. Kemur það til vegna stærðar Pollards.

Pollard er 211 sentimetrar á hæð og 126 kílógrömm að þyngd. Hjarta hans er því töluvert stærra en gengur og gerist og þarf hjarta sem yrði grætt í hann að vera nægilega stórt til þess að geta pumpað blóði með eðlilegum hætti í þetta stórum líkama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert