Körfuknattleiksmaðurinn Magnús Már Traustason var útnefndur íþróttamaður ársins 2023 hjá Þrótti úr Vogum.
Hann var einnig valinn leikmaður ársins hjá körfuknattleiksdeild félagsins en hann fór á kostum með liði Þróttar sem fagnaði sigri í 2. deildinni á síðustu leiktíð.
Alls skoraði Magnús 26 stig að meðaltali í 2. deildinni og var einn besti leikmaður deildarinnar en Þróttarar hafa komið á óvart á sínu fyrsta tímabili í 1. deildinni þar sem þeir sitja í 5.-6. sæti með 16 stig.
Ásamt Magnúsi voru knattspyrnumennirnir Adam Árni Róbertsson og Ólafur Örn Eyjólfsson og körfuknattleiksmaðurinn Jón Arnór Sverrisson einnig tilnefndir sem íþróttamaður ársins hjá Þrótturum.