Fékk að fara heim í fyrsta skiptið í sex ár

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alltaf gaman að koma heim og hitta bæði strákana og fjölskylduna sína líka auðvitað,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik, í samtali við mbl.is á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í gær.

Tryggvi Snær, sem er 26 ára gamall, verður í eldlínunni með íslenska karlalandsliðinu á morgun þegar það mætir Ungverjalandi í B-riðli undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöllinni klukkan 19:30.

Eyða góðum tíma saman

Framherjinn stóri og stæðilegi er samningsbundinn Bilbao í efstu deild Spánar en hann hefur leikið á Spáni frá árinu 2017 þegar hann hélt út í atvinnumennsku frá uppeldisfélagi sínu Þór á Akureyri.

„Mér líður stundum illa yfir því hversu litlum tíma ég eyði með strákunum í liðinu þegar ég er á Íslandi því hver einasta mínúta fer einhvernvegin í það að gera eitthvað skemmtilegt með þessum og hinum. 

Að sama skapi erum við á leiðinni til Tyrklands þar sem við munum eyða góðum tíma allir saman í liðinu,“ sagði Tryggvi en Ísland mætir Tyrklandi í Istanbúl í síðari leik landsleikjagluggans hinn 25. febrúar.

Fór í fjárhúsin

Tryggvi er fæddur og uppalinn í Þingeyjarsveit, nánar tiltekið á bænum Svartárkoti þar sem fjölskylda hans býr. 

„Menn í minni stöðu eru meira í því að hitta fjölskylduna sína og fólkið sitt á Íslandi þegar maður kemur til landsins. Ég fékk að fara norður í fyrsta skiptið í sex ár um daginn og náði tveimur og hálfum degi á Svartárkoti sem var algjör veisla.

Það er best að segja sem minnst um hvað ég var að gera, svo maður brjóti nú engar reglur, en ég fór aðeins í fjárhúsin og vann aðeins með pabba. Það var virkilega gott að hitta alla í fjölskylduna og detta í smá vetrargír fyrir norðan,“ bætti Tryggvi léttur við í samtali við mbl.is.

Tryggvi Snær hitar upp.
Tryggvi Snær hitar upp. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert