Stórkostlegur fjórði leikhluti Íslands

Martin Hermannsson var stigahæstur hjá íslenska karlalandsliðinu í körfuknattleik þegar liðið tók á móti Ungverjalandi í fyrsta leik sínum í B-riðli undankeppni EM 2025 í Laugardalshöll í kvöld.

Leiknum lauk með naumum sigri Íslands, 70:65, en Martin skoraði 17 stig, tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum.

Ísland byrjar því undankeppni EM á sigri og er með 2 stig, líkt og Ítalía, sem hafði betur gegn Tyrklandi í Pesaro á Ítalíu í kvöld, 87:80.

Þrjú efstu lið riðilsins tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Finnlandi, á Kýpur, í Póllandi og Lettlandi í ágúst og september á næsta ári.

Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Tyrklandi í Istanbúl á sunnudaginn kemur, 25. febrúar.

Ungverjar byrjuðu betur

Tryggvi Snær Hlinason í baráttu undir körfunni.
Tryggvi Snær Hlinason í baráttu undir körfunni. Kristinn Magnússon


Martin Hermannsson skoraði fyrstu körfu leiksins en Ungverjar skoruðu tvær þriggja stiga körfur í röð og komust í 6:2.

Liðinum gekk illa að skora eftir þetta en Elvar Friðriksson minnkaði muninn í tvö stig, 6:4, eftir tæplega fjögurra mínútna leik.

Ungverjar voru hins vegar áfram með frumkvæðið og Benedek Varadi kom Ungverjum fimm stigum yfir, 9:4, með þriðju þriggja stiga körfu Ungverja í leiknum.

Íslenska liðið vann sig vel inn í leikinn og Jón Axel Guðmundsson jafnaði metin fyrir í 9:9, þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Kristinn Pálsson kom Íslandi yfir í fyrsta sinn síðan á upphafsmínútunum, 14:13, með laglegri þriggja stiga körfu en Ungverjar skoruðu síðustu fjögur stig leikhlutans og leiddu 19:16 að honum loknum.

Mikið jafnræði í öðrum leikhluta

Martin Hermannsson í sókn í kvöld.
Martin Hermannsson í sókn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon


Annar leikhluti spilaði nánast eins og sá fyrri. Marcell Pongo kom Ungverjum fimm stigum yfir, 21:16, en Ísland skoraði næstu fimm stig leiksins og  Kristinn Pálsson jafnaði metin í 21:21.

Martin kom Íslandi yfir, 25:23, með laglegu gegnumbroti en Szilard Benke var fljótur að svara og jafna metin í 25:25.

Mikið jafnræði var með liðunum allan annan leikhluta en staðan var 33:33, þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Liðinum gekk illa að hitta úr skotunum sínum en Adam Hanga kom Ungverjum tveimur stigum yfir á nýjan leik, 35:33, þegar tæp mínúta var eftir af hálfleiknum.

Íslenska liðið fór illa með síðustu sókn sína og Ungverjar unnu boltann. Zoltan Perl brunaði upp völlinn, skoraði síðustu körfu hálfleiksins, og Ungverjar leiddu með fjórum stigum í hálfleik, 37:33.

Ungverjar ná 9 stiga forskoti

Jón Axel Guðmundsson í sókn í kvöld.
Jón Axel Guðmundsson í sókn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon


Tryggvi Snær Hlinason skoraði fyrstu stig síðari hálfleiksins af vítalínunni og minnkaði forskot Ungverja í tvö stig, 37:35.

Ungverjar voru svo mun sterkari á næstu mínútum en Benedek Varadi kom þeim sjö stigum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 45:38, með frábærri þriggja stiga körfu og Akos Keller kom þeim 9 stigum yfir í fyrsta sinn skömmu síðar með skoti sem fór yfir Tryggva Snæ í vörninni.

Þá kom mjög góður kafli hjá íslenska liðinu og Ægir Þór Steinarsson skoraði fjögur stig í röð og minnkaði forskot Ungverja í fimm stig, 49:44.

Elvar Már Friðriksson fiskaði svo tvö vítaskot og skoraði úr þeim báðum og munurinn allt í einu orðinn þrjú stig á nýjan leik, 49:46.

Elvar Már Friðriksson keyrði svo í átt að Ungverjum, skoraði og fékk villu að auki, og var munurinn því einungis tvö stig, 51:49, Ungverjum í vil, að þriðja leikhluta loknum.

Ísland sterkara á ögurstundu

Pavel Ermolinskij, þjálfari landsliðsins á hliðarlínunni í kvöld.
Pavel Ermolinskij, þjálfari landsliðsins á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon


Íslenska liðið byrjaði fjórða leikhluta af miklum krafti. Elvar Friðriksson jafnaði metin í 52:52 með sinni fyrstu þriggja stiga körfu í leiknum og Tryggvi Snær Hlinason kom Íslandi yfir í fyrsta sinn síðan í öðrum leikhluta af stuttu færi, 54:52.

Kristinn Pálsson skoraði svo þriggja stiga körfu skömmu síðar og kom Íslandi allt í einu fimm stigum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 57:52.

Orri Gunnarsson og Jón Axel Guðmundsson skoruðu svo sitt hvora körfuna fyrir íslenska liðið og staðan allt í einu orðin 61:52, Íslandi í vil.

Ungverjar gerðu áhlaup og Zoltan Perl minnkaði muninn í þrjú stig, 61:58, þegar rúmlega þrjár mínútur voru til leiksloka.

Martin Hermannsson kom Íslandi fimm stigum yfir, 63:58, þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka og Elvar Már Friðriksson setti niður þriggja stiga körfu strax í næstu sókn og Ungverjum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil á lokamínútunni. Martin Hermannsson skoraði fjögur síðustu stigin af vítalínunni, breytti stöðunni úr 66:64 í 68:64, og síðan úr 68:65 í 70:65, og gulltryggði sigurinn.

Ísland 70:65 Ungverjaland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert