„Við enduðum með sigur og tvö stig svo þetta endaði gríðarlega vel. Við fundum orkustigið betur í seinni hálfeik og stigum þá upp,“ sagði Kristófer Acox eftir 70:65 sigur Íslands gegn Ungverjalandi í B-riðli undankeppni EM 2025 í körfuknattleik í Laugardalshöll í kvöld.
„Við settum meiri pressu í varnarleikinn í seinni hálfeik og náðum að taka þá svolítið úr þeirra þægindaramma og þeir fóru að taka erfiðari skot og við náðum að loka betur, tengja saman stoppin og skora auðveldari körfur. Sérstaklega kaflinn seint í þriðja leikhluta,“ sagði Kristófer í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Uppselt var á leikinn og mikil orka kom frá stúkunni undir lok leiks.
„Um leið og við náðum að finna okkar orku þá koma áhorfendur með okkur og maður sá fólkið standa upp og blátt haf með okkur og það kom manni í annan gír og það kom okkur áfram í kvöld.“
Næsti leikur er gegn Tyrklandi á sunnudaginn.
„Við tökum sama orkustig með okkur út. Við þurfum að fara með þetta íslenska brjálæði með okkur til Tyrklands og reyna að koma þeim á hælana. Þetta er erfiður andstæðingur og erfitt að fara þangað að sækja sigur en auðvitað stefnum við að því og ef við spilum á þessu orkustigi þá er allt opið,“ sagði Kristófer.