Þeim að þakka að ég átti góðan leik

Kristinn Pálsson átti frábæran leik í kvöld.
Kristinn Pálsson átti frábæran leik í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var rosalega mikið upp og niður. Það tók smá tíma að finna orkuna og ná orkustiginu,“ sagði Kristinn Pálsson sem átti frábæran leik í 70:65 sigri Íslands á Ungverjalandi í undankeppni EM 2025 í Laugardalshöllinni í kvöld.

Ísland byrjaði leikinn ekki mjög vel en Kristinn kom Íslandi yfir í fyrsta skipti í leiknum undir lok fyrsta leikhluta og skoraði mikilvæg stig fyrir liðið. Jafnaði metin í upphafi annars leikhluta og skoraði þriggja stiga körfu í fjórða leikhluta sem kom Íslandi í fimm stiga forystu.

„Það var geggjað að vinna þennan leik og vera góður, liðið var allt gott og þetta var geðveikt. Ég náði að setja nokkur skot en strákarnir fundu mig á réttum stöðum og það er þeim að þakka að ég skyldi eiga góðan leik,“ sagði Kristinn í viðtali við mbl.is eftir leikinn

Ísland var í brasi í byrjun en svo small þetta undir lokin.

„Þeir voru að setja niður stór skot en við vorum ekki að nýta okkar en um leið og við náðum að setja niður stór skot þá náðum við að komast aðeins fram úr þeim. Þá leið okkur vel og vissum að við gætum unnið þennan leik.“

Ungverjaland er það lið í B-riðlinum sem er næst Íslandi í styrkleikaflokknum og því var þetta mikilvægur leikur fyrir framhaldið en Ítalía og Tyrkland eru hin liðin í riðlinum.

„Það var ekki stress heldur spenna fyrir leikinn. Við vissum að það væri full höll, það er langt síðan að það gerðist. Það er geðveikt að spila í svona andrúmslofti, þetta er eitthvað sem við sækjumst í,“ sagði Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert