Skoraði flautukörfu frá eigin vallarhelmingi

Max Strus átti erfitt með að trúa sigurkörfu sinni í …
Max Strus átti erfitt með að trúa sigurkörfu sinni í nótt. AFP/Jason Miller

Max Strus reyndist hetja Cleveland Cavaliers í ótrúlegum 121:119-sigri á Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt þegar hann skoraði flautukörfu frá eigin vallarhelmingi á lokasekúndu leiksins.

Þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir af leiknum kom P.J. Washington Dallas í 118:119 með sniðskoti.

Tíminn var því afar naumur og ákvað Strus í örvæntingu að reyna draumaskot fyrir aftan miðju sem fór rakleitt ofan í körfuna og ætlaði allt um koll að keyra í Rocket Mortgage FieldHouse-keppnishöllinni í Cleveland.

Strus lauk leik með 21 stigi en stigahæstur hjá Cleveland var Donovan Mitchell með 31 stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar.

Stórleikur Slóvenans Luka Doncic dugði ekki til sigurs fyrir Dallas en hann skoraði 45 stig, tók níu fráköst, gaf 14 stoðsendingar og stal boltanum þrisvar sinnum.

Kyrie Irving bætti við 30 stigum og sex fráköstum.

Úrslit næturinnar:

Cleveland – Dallas 121:119

Washington – Golden State 112:123

Orlando – Brooklyn 108:81

Atlanta – Utah 124:97

Boston – Philadelphia 117:99

New York – New Orleans 92:115

Minnesota – San Antonio 114:105

Chicago – Detroit 95:105

Milwaukee – Charlotte 123:85

Oklahoma – Houston 112:95

Portland – Miami 96:106

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert