Áfall fyrir Njarðvíkinga

Mario Matasovic er lykilmaður hjá Njarðvíkingum.
Mario Matasovic er lykilmaður hjá Njarðvíkingum. Eggert Jóhannesson

Mario Matasovic, króatíski körfuknattleiksmaðurinn hjá Njarðvík, gæti misst af því sem eftir er af yfirstandandi keppnistímabili.

Matasovic meiddist á ökkla á dögunum, er ekki brotinn en illa tognaður samkvæmt heimildum mbl.is, og ljóst að um einhverra vikna fjarveru verður að ræða hjá honum.

Njarðvíkingar eiga fimm leiki eftir í úrvalsdeildinni á næstu fimm vikum. Þá hefst úrslitakeppnin í apríl og þar yrði mikið áfall fyrir Njarðvíkinga að vera án Króatans.

Þetta er sjötta tímabilið sem Matasovic leikur með Njarðvík og hann hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu frá byrjun. Í vetur hefur hann spilað næstmest allra í liðinu, hefur varið flest skot, er þriðji stigahæsti leikmaður liðsins og er líka þriðji í stoðsendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert