KR hafði betur gegn Fjölni, 93:79, í toppslag í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma vann ÍR 98:71-útisigur á Skallagrími og eru KR og ÍR jöfn á toppnum með 32 stig, tveimur stigum meira en Fjölnir.
KR lagði grunninn að sigrinum með góðum miðkafla, því KR vann annan og þriðja leikhluta samanlagt 51:35 og voru Fjölnismenn ekki líklegir til að jafna í fjórða leikhluta.
Nimrod Hilliard skoraði 24 stig fyrir KR og Dani Koljanin 19, ásamt því að taka 12 fráköst. Lewis Diankulu skoraði 17 stig og tók 10 fráköst fyrir Fjölni.
ÍR var allan tímann með undirtökin gegn Skallagrími í Borgarnesi. Var staðan í hálfleik 44:34 og bætti ÍR í forskotið í seinni hálfleiknum.
Lamar Morgan skoraði 26 stig fyrir ÍR og Friðrik Curtis 13 og tók tíu fráköst. Darius Banks gerði 27 fyrir Skallagrím og þeir Magnús Engill Valgeirsson og Nicolas Elame 15 hvor.
Þá vann Þór frá Akureyri 99:95-heimasigur á Þrótti úr Vogum. Reynir Róbertsson skoraði 33 stig fyrir Þór og þeir Ingvi Þór Guðmundsson og Magnús Már Traustason gerðu 23 stig hvor fyrir Þrótt.