Keflavík bikarmeistari í 16. skipti

Keflavík varð í kvöld bikarmeistari kvenna í körfubolta í 16. skipti og í fyrsta skipti frá árinu 2018 er liðið lagði Þór frá Akureyri að velli í Laugardalshöll, 89:67. Keflavík er tvöfaldur bikarmeistari, því karlaliðið vann Tindastól í fyrri úrslitaleik dagsins.

Keflavíkurkonur urðu deildarmeistarar á dögunum og ætla sér þrennuna með því að verða Íslandsmeistarar í vor.

Leikurinn var jafn framan af og Þór komst yfir í fyrsta skipti í stöðunni 13:10 eftir sex mínútur. Þá hrökk Keflavík verulega í gang, skoraði 16 síðustu stig fyrsta leikhlutans og var staðan eftir hann 26:13.

Keflavík hélt forskotinu í öðrum leikhluta og jók það mest upp í 18 stig í stöðunni 46:28. Þórsarar lögðu ekki árar í bát og með fínum lokakafla í öðrum leikhluta tókst Akureyrarliðinu að vinna leikhlutann með einu stigi, 21:20. Keflavík var hins vegar enn með fínt forskot, 46:34, í hálfleik.

Birna Valgerður Benonýsdóttir var stigahæst hjá jöfnu liði Keflavíkur í fyrri hálfleik með tíu stig. Elisa Pinzan gerði átta og Anna Ingunn Svansdóttir sjö. Belgíska landsliðskonan Lore Devos var langbest hjá Þór í fyrri hálfleik með 16 stig. Hulda Ósk Bergsteinsdóttir kom næst með sjö.

Keflavík gaf í þegar seinni hálfleikur fór af stað og eftir 23:9-sigur í þriðja leikhluta var ljóst að Keflavík væri með níu fingur á bikarnum í stöðunni 69:43 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Þórsarar þurftu þá á algjöru kraftaverki að halda, en það kom ekki í Laugardalshöll í kvöld.

Daniela Wallen, Elisa Pinzan og Birna Valgerður Benonýsdóttir skoruðu 15 stig hver fyrir Keflavík. Lore Devos gerði 20 fyrir Þór og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 16. 

Þór Ak. 67:89 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert