New York Knicks er búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppni Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik. Í nótt vann liðið góðan sigur á toppliði Boston Celtics, 118:109.
Jalen Brunson fór fyrir New York er hann skoraði 39 stig.
New York er í þriðja sæti deildarinnar og eftir sigurinn í nótt getur liðið ekki endað neðar en í sjötta sæti, síðasta sætinu sem gefur beint sæti í úrslitakeppninni.
Stórleikur Freds VanVleets í liði Houston Rockets dugði ekki til þegar liðið mátti sætta sig við 121:124-tap fyrir Utah Jazz í Vesturdeildinni.
VanVleet fór hamförum er hann skoraði 42 stig, tók sjö fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal boltanum tvisvar.
Hjá Utah var Króatinn Luka Samanic stigahæstur með 22 stig auk þess að taka sex fráköst.
Houston er í 11. sæti Vesturdeildarinnar og Utah er sæti neðar. Hvorugt liðið á möguleika á því að komast í úrslitakeppni deildarinnar.
Úrslit næturinnar:
Boston – New York 109:118
Utah – Houston 124:121
Detroit – Chicago 105:127
Portland – Golden State 92:100
Sacramento – New Orleans 123:135