Þór frá Þorlákshöfn tók á móti Njarðvík í 8-liða úrslitum úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi en Þórsarar knúðu fram sigur, 95:92, og jöfnuðu metin í einvíginu, 1:1.
Eftir sveiflukenndan leik voru liðin jöfn að stigum 85:85 þegar þrjár mínútur voru eftir af 4. leikhluta. Þórsarar skoruðu næstu fimm stig en Njarðvík minnkaði muninn í eitt stig 89:90 þegar 38 sekúndur voru eftir en Tómas Valur Þrastarson skoraði stórglæsilega þriggja stiga körfu tæpa tvo metra fyrir utan þriggja stiga línuna rétt í þann mund sem skotklukkan rann út og kom Þór í 94:89.
Njarðvíkingar komu ekki upp skoti fyrr en of seint og leikar enduðu 95:92 fyrir heimamenn. Nigel Pruitt skoraði 25 stig fyrir Þór og Tómas Valur 18 og tók 7 fráköst að auki. Í liði gestanna skoraði Dwayne Lautier-Ogunleye 24 stig og tók 8 fráköst og Dominykas MIlka skoraði 23 stig og tók heil 14 fráköst.
Liðin mætast aftur á fimmtudaginn í Njarðvík.