Birtir ljót skilaboð eftir leikinn ótrúlega

Davíð Tómas Tómasson, til vinstri.
Davíð Tómas Tómasson, til vinstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleiksdómarinn Davíð Tómas Tómasson fékk ljót skilaboð á Facebook eftir að hann dæmdi leik Njarðvíkur og Þórs frá Þorlákshöfn í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla.

Njarðvík vann leikinn í gærkvöldi með þriggja stiga körfu frá Þorvaldi Orra Árnasyni og sendi Þórsara í sumarfrí.

Einhverjir stuðningsmenn Þórs voru ósáttir við hve lengi klukkan var í gang í lokasókn Njarðvíkinga, en þeir fengu innkast þegar 0,9 sekúndur voru eftir og tókst Þorvaldi að grípa boltann og skjóta á þeim tíma.  

Davíð greindi frá á Facebook að hann hafi fengið nokkur skilaboð eftir leikinn og deildi einum þeirra á miðlinum, en þau má sjá hér fyrir neðan.

Facebook-færsla Davíðs:

Í gær dæmdi ég oddaleik Njarðvíkur og Þórs í 8 liða úrslitum karla. Leikurinn var jafn og spennandi nánast allan tímann og gríðarlega vel leikinn. Hann fer í framlengingu og heimaliðið vinnur eftir að skora flautukörfu nálægt miðjunni. Lygilegur endir á frábærum leik!

Í algjöru spennufalli komum við dómararnir niður í klefa eftir leik og fyrsta sem við gerum er að taka utan um hvorn annan. Aðallega vegna þess að deila svona reynslu er ómetanlegt en ekki síður vegna þess að við komumst, að okkar mati, mjög vel frá verkefninu. Gamanið kárnaði hins vegar fljótt þegar ég opna símann minn. Þessi skilaboð voru ein af fimm sem biðu mín eftir leik i gær, öll á svipaða vegu.

Ég hef dæmt í 17 ár, ótal marga mikilvæga leiki og skilaboðin af þessu tagi hafa verið óteljandi. Á öllum miðlum, öll árin og á öllum tímum sólarhringsins. Áður en að ég faldi símanúmerið mitt á ja.is og hér á Facebook var ég líka að fá símhringingar á nóttunni.

Það eru fáir eins gagnrýnir á eigin frammistöðu og ég, enda er það eina leiðin til að ná raunverulegum árangri. Eftir leik í gær var það okkar tilfinning að hann hafi verið gríðarleg vel dæmdur, það var síðan staðfest eftir að hafa horft á hann aftur þegar heim var komið og rýnt í alla ákvarðanatöku langt fram á nótt. Því að það er vinnan sem maður setur inn í þetta, ekki bara að mæta 5 mínútur fyrir leik og gera bara eitthvað. Þrátt fyrir hversu vel það gekk bíða mín fimm skilaboð.. Fimm! Þið getið ímyndað ykkur hvernig pósthólfið er þegar það gengur ekki eins vel á vellinum.

Nú eru kynslóðaskipti í íslenskri körfuboltadómgæslu. Margir af okkar leiðandi mönnum eru nú þegar hættir eða eru á síðustu metrunum. Það gengur erfiðlega að fá inn nýja menn og enginn skilur af hverju það er ...

Úrslitakeppnin eru jólin í íslensku körfuboltalífi. En þó að það sé mikið í húfi og tilfinningar í hámarki þurfum við samt öll að gera betur en þetta!

Davíð biðu þessi ljótu skilaboð beint eftir leik.
Davíð biðu þessi ljótu skilaboð beint eftir leik. Ljósmynd/Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert