Þrjóskukastið rétt að byrja hjá Aþenu

Leikmenn Aþenu fagna sigrinum í fjórða úrslitaleiknum á Sauðárkróki og …
Leikmenn Aþenu fagna sigrinum í fjórða úrslitaleiknum á Sauðárkróki og sætinu í úrvalsdeildinni. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

„Þetta er mesta þrjóskupróf sögunnar,“ var það fyrsta sem Brynjar Karl Sigurðsson þjálfari Aþenu sagði er hann ræddi við Morgunblaðið í gær. Brynjar stýrði Aþenuliðinu upp í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í fyrsta skipti á þriðjudagskvöld, en félagið var stofnað árið 2019 og hafa hlutirnir því gerst ansi hratt.

Aþena hafði betur gegn Tindastóli, 3:1, í úrslitaeinvígi um sæti í deild þeirra bestu. Þar á undan vann Aþena sigur á KR í einvígi sem fór í oddaleik. Aþena hefur því leikið níu úrslitaleiki á skömmum tíma.

„Þetta er eins og heilt tímabil þegar deildin er búin. Þeir þekkja það sem hafa tekið þátt í úrslitakeppni, en stelpurnar mínar eru að gera þetta í fyrsta skipti,“ sagði hann.

Brynjar sagði það ekki skipta miklu máli fyrir sig í hvaða deild Aþena spilar, en það hjálpaði félaginu á bak við tjöldin gríðarlega að fara upp. Félagið fengi meiri stuðning sem úrvalsdeildarfélag, stuðning sem félagið þarf á að halda.

Drullusama í hvaða deild

„Ég er að keyra félag þar sem allt snýst um þróun. Fyrir mér snýst þetta um að gera stelpurnar góðar og ég hef aldrei tekið því mjög alvarlega að vinna einhverja titla. Mér er drullusama um hvar stelpurnar mínar eru að spila, hvort það sé 1. deildin eða efsta deild. Markmiðið er líka að vinna en aðalatriðið er að búa til góða körfuboltaleikmenn,“ sagði Brynjar og hélt áfram:

„Það skiptir miklu máli fyrir félagið að vinna þetta, því ég er með viðkvæmt félag í höndunum. Við erum á öðru ári í Efra-Breiðholti og það hefði orðið reiðarslag að vera áfram í 1. deild. Að fara upp virðist vera það eina sem okkar umhverfi skilur.

Ég gæti verið að hjálpa fullt af krökkum sem eru ekki í rosalega góðum málum en borginni og þeim sem eru í kringum þetta, stuðningsaðilum og öllum, er alveg sama um það. Þú færð hins vegar mikinn meðbyr með því að vinna titla og það er sorglegt að það sé staðan. Þetta var mikilvægt fyrir þetta hverfi og kvennakörfuboltann,“ útskýrði Brynjar.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu i dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert