Benedikt hættur með Njarðvík – Friðrik að snúa aftur?

Benedikt Guðmundsson er hættur þjálfun Njarðvíkur.
Benedikt Guðmundsson er hættur þjálfun Njarðvíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Guðmundsson hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik.

Þetta sagði hann í samtali við mbl.is eftir tap fyrir Val í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins í kvöld.

Tjáði Benedikt blaðamanni að Njarðvík væri þegar búin að ráða „topp þjálfara“ en vildi ekki gefa upp hvern væri um að ræða. Hann vildi að körfuknattleiksdeild Njarðvíkur gerði það sjálf.

Vill að ég fari aftur í þjálfun

Það vekur upp spurningar hvort Friðrik Ingi Rúnarsson sé að taka við Njarðvíkurliðinu á nýjan leik en hann birti færslu á Facebook-síðu sinni í dag þar sem fram kom að Friðrik Ingi væri að öllum líkindum á leiðinni aftur í þjálfun.

Friðrik Ingi Rúnarsson.
Friðrik Ingi Rúnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi ungi maður sem býr innra með mér er öllum stundum að hughreysta mig og hvetja mig áfram, hann ögrar mér stundum og lætur mig heyra það, allt er það þó af umhyggjusemi, hann vill mér vel.

Nú vill hann að ég fari aftur í þjálfun, segir að ég hafi ekki sagt mitt síðasta þar og eigi nóg að gefa. Eitthvað þykist hann vita,“ skrifaði Friðrik Ingi meðal annars.

Hann hefur áður þjálfað karlalið Njarðvíkur á árunum 2014 til 2016, 1997 til 2000 og 1990 til 1992.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka