Valur og Njarðvík mættust í hreinum oddaleik á Hlíðarenda í kvöld og lauk leiknum með sigri Vals 85:82. Það eru því Valsmenn sem mæta Grindavík í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfubolta.
Leikurinn í kvöld fór mjög hratt af stað og voru Valsmenn skrefi á undan framan af fyrsta leikhluta. Valsmenn náðu mest 9 stiga forskoti í leikhlutanum en Njarðvíkingar sættu sig ekki við það og minnkuðu muninn og náðu forskoti áður en leikhlutanum lauk. Staðan eftir fyrsta leikhluta 29:27 fyrir Njarðvík.
Annar leikhluti var ekki ólíkur þeim fyrsta. Liðin spiluðu hratt og tóku stuttar sóknir. Njarðvíkingar náðu 6 stiga forskoti strax í öðrum leikhluta en Valsmenn jöfnuðu í stöðunni 33:33. Þá setti Elías Pálsson flottan þrist fyrir Njarðvík og kom þeim aftur í forystu sem Njarðvík hélt út leikhlutann. Mest náði Njarðvík 6 stiga forskoti í lok leikhlutans og leiddu 50:44 í hálfleik.
Kristinn Pálsson skoraði 15 stig í fyrri hálfleik fyrir Val og Kristófer Acox var með 5 fráköst og 2 stoðsendingar í fyrri hálfleik.
Í liði Njarðvíkur var Dwayne Lautier-Ogunleye með 15 stig og Dominykas Milka var með 8 fráköst og 4 stoðsendingar í fyrri hálfleik.
Það var lítið skorað í þriðja leikhluta og voru bæði lið að klikka mikið á skotum sínum ásamt því að þétta varnirnar. Valsmenn minnkuðu muninn fljótlega niður í 2 stig í stöðunni 50:48 fyrir Njarðvík. Njarðvíkingar juku forskotið aftur í 7 stig í stöðunni 57:50 en Valsmenn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í 2 stig í stöðunni 62:60.
Valsmenn gátu jafnað eða komist yfir en tókst það ekki og Njarðvíkingar skunduðu í sókn og Dwayne Lautier-Ogunleye setti flautuþrist og jók muninn í 5 stig fyrir fjórða leikhlutann. Staðan eftir þriðja leikhluta 65:60 fyrir Njarðvík.
Fjórði leikhluti var heldur betur kaflaskiptur. Njarðvíkingar virtust ætla að sigla sigrinum heim þegar þeir voru komnir með 11 stiga forskot í stöðunni 78:67 fyrir Njarðvík en þá sýndu Valsmenn afhverju þeir eru deildarmeistarar og settu allar sínar túrbínur í gang.
Niðurstaðan var sú að Valsmenn söxuðu forskotið niðu á örfáum mínútum og komust að lokum yfir í stöðunni 80:78. Þeir gerðu gott betur en það og náðu 4 stiga forskoti þegar 1 mínútua og 10 sekúndur voru eftir í stöðunni 82:78 og ekkert gekk hjá Njarðvíkingum.
Svo fór að Valsmenn lönduðu ævintýralegum sigri og mæta Grindavík í úrslitaeinvíginu.
Taiwo Badmus og Kristinn Pálsson skoruðu 22 stig hvor fyrir Valsmenn og Kristófer Acox 14 en Kristinn og Kristófer tóku 9 fráköst hvor.
Í liði Njarðvíkur var Dwayne Lautier-Ogunleye með 26 stig og Dominykas Milka skoraði 17 stig og tók 11 fráköst.