Rúnar Ingi Erlingsson verður næsti þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik, samkvæmt heimildum mbl.is.
Benedikt Guðmundsson tilkynnti í gærkvöld að hann væri hættur með liðið. Njarðvík féll þá út í undanúrslitum Íslandsmótsins eftir tap fyrir Valsmönnum í hörkuspennandi oddaleik á Hlíðarenda.
Rúnar er þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur sem leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn Keflavík og fyrsti leikur liðanna fer fram annað kvöld.
Vegna þess munu Njarðvíkingar ekki staðfesta ráðningu Rúnars til karlaliðsins fyrr en einvíginu er lokið.
Rúnar hefur verið aðalþjálfari kvennaliðs Njarðvíkur frá árinu 2020 en næstu tvö ár þar á undan var hann aðstoðarþjálfari liðsins. Njarðvík varð Íslandsmeistari kvenna undir hans stjórn árið 2022 og hann freistar þess nú að vinna sinn annan titil með liðinu á þremur árum. Samningur hans vegna kvennaliðsins rennur út að einvíginu loknu.