Nágrannaliðin Njarðvík og Keflavík áttust við í öðrum leik úrslitaeinvígis Íslandsmóts kvenna í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Keflavíkur, 81:71. Leikið var í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Staðan í einvíginu er því 2:0 en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Keflavíkurkonur geta því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á miðvikudag.
Njarðvíkurkonur byrjuðu fyrsta leikhlutann með því að skora fjögur fyrstu stigin. Eftir það kom 11:2 kafli hjá Keflavík sem færði þeim forystuna í stöðunni 12:8.
Keflavík var síðan með forystuna restina af leikhlutanum og staðan eftir fyrsta leikhluta 30:24 fyrir Keflavík.
Keflavíkurkonur héldu áfram að auka forskotið í öðrum leikhluta og náðu mest 12 stiga forskoti í stöðunum 38:26 og 40:28 fyrir Keflavík. Njarðvíkurkonur náðu loks að rétta úr kútnum þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Það byrjaði með þrigga stiga körfu frá Enu Viso í stöðunni 40:31.
Njarðvíkurkonur söxuðu síðan hægt og bítandi á forskot Keflavíkur sem endaði með því að liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 44:43 fyrir Keflavík.
Andela Strize skoraði 13 stig í fyrri hálfleik fyrir Njarðvík og var Selena Lott með 7 fráköst og 7 stoðsendingar.
Í liði Keflavíkur var Sara Rún Hinriksdóttir með 12 stig og Daniela Wallen með 5 fráköst og 6 stoðsendingar.
Njarðvík byrjaði þriðja leikhluta á að komast yfir 46:44 með þremur stigum frá Selenu Lott. Eftir það tóku Keflavíkurkonur yfir leikinn og lögðu grunninn að góðum sigri. Þær jöfnuðu i stöðunni 46:46 og komust síðan yfir, mest 9 stigum í stöðunni 64:55.
Njarðvíkurkonur náðu þó að minnka muninn í 8 stig fyrir lok leikhlutans. Staðan eftir þriðja leikhluta 64:56 fyrir Keflavík.
Það þarf lítið að segja um fjórða leikhluta annað en það að Keflavíkurkonur voru bæði grimmari og betri á öllu sviðum leiksins og innsigluðu sigurinn fljótlega í leikhlutanum. Þær náðu mest 13 stiga forskoti í leiknum og unnu að lokum sannfærandi 10 stiga sigur, 81:71 og eru komin með aðra höndina á Íslandsmeistaratitilinn árið 2024.
Andela Strize skoraði 17 stig Emilie Hesseldal var með 14 fráköst. Selena Lott var með 10 stoðsendingar fyrir Njarðvík í leiknum.
Í liði Keflavíkur var Sara Rún Hinriksdóttir með 23 stig og Daniela Wallen með 11 fráköst og 8 stoðsendingar.