Hann er ekki að brjóta okkur niður

Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson sækir að körfu Valsmanna.
Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson sækir að körfu Valsmanna. mbl.is/Eyþór Árnason

Valur Orri Valsson, leikmaður Grindavíkur, var ljómandi sáttur með sigur sinna manna gegn Val, 93:89, í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfubolta í Grindavík í kvöld. 

Staðan í einvíginu er því 1:1 en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. 

Valur sagðist í samtali við mbl.is vera feginn að hafa unnið leikinn.

„Ljómandi sáttur, mjög feginn að hafa unnið þennan leik. Við áttum erfitt með Valsara heilt yfir í leiknum en við náðum sem betur fer að stíga upp í lokinn og klára þetta. 

Við gerðum betur varnarlega í fjórða leikhluta. Í fyrri hálfleik hjálpuðum við hvor öðrum illa. Þeir settu stór skot, Justas [Tamulis] var frábær og setti marga þrista. 

Við náðum að brjóta flæðið í þeirra leik í fjórða leikhluta,“ sagði Valur.

Ekki að brjóta okkur niður

DeAndre Kane var magnaður í liði Grindavíkur og skoraði 35 stig. Valur segir hann afskaplega mikið vilja vinna.

„Hann setur í annan gír. Hann langar ekkert eðlilega mikið að vinna. Við þurfum að hætta að taka honum eins og að hann sé að reyna að brjóta okkur niður. Taka því sem jákvæðum hlut og fylgja honum í þessu.“

Hvernig er svo að spila fyrir framan þessa áhorfendur í troðfullum Smára? 

„Það er eiginlega truflað. Miðað við allt sem hefur gerst þar er magnað að sjá samfélagið koma saman yfir körfuboltaleik. Sem betur fer náðum við að gera þeim glaðan dag í dag og vonandi höldum við því áfram. 

Við fögnum í kvöld eins og með alla sigra í úrslitakeppninni. Svo mætum við aftur í vinnuna á morgun,“ bætti Valur Orri við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert