Valur er Íslandsmeistari karla í körfubolta í fjórða sinn eftir heimasigur á Grindavík, í oddaleik liðanna fyrir troðfullu húsi á Hlíðarenda í kvöld, 80:73. Valsmenn unnu þar með einvígið, 3:2.
Valur vann síðast árið 2022 en liðið lék einnig til úrslita í fyrra.
Leikurinn fór afleitlega af stað fyrir Val en fyrirliði liðsins Kristófer Acox meiddist eftir örfáar sekúndur. Þá keyrði DeAndre Kane inn í hann, Kristófer datt og lenti illa á hnénu. Þurfti hann síðan að vera borinn af velli.
Valsmenn náðu þó góðri forystu á næstu mínútum, 8:2, en Grindvíkingar náðu saman vopnum sínum eftir það.
Staðan var jöfn þegar að 30 sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Tvistur frá Frank Aron Booker og þristur frá Kristni Pálssyni á lokasekúndu leikhlutans kom Valsmönnum fimm stigum yfir, 27:22, eftir fyrsta leikhluta.
Valsmenn gegnu á lagið í öðrum leikhluta og náðu 13 stiga forskoti þegar að tvær mínútur voru eftir, 48:35.
Grindvíkingar minnkuðu þá aðeins muninn fyrir lok hálfleiksins en Valur var níu stigum yfir, 49:40, er liðin gengu til búningsklefa.
Grindvíkingar hófu seinni hálfleikinn með látum og minnkuðu muninn í tvö stig, 52:50, og Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals tók leikhlé. Eftir það tókst Valsliðinu að endurheimta forystuna og fór ellefu stigum yfir inn í fjórða leikhluta, 68:57.
DeAndre Kane fékk sína fimmtu villu er átta mínútur voru eftir af leiknum. Lék hann því ekkert meira með Grindvíkingum.
Valsmenn voru þá aftur sterkari í fjórða leikhluta og héldu út. Að
Taiwo Badmus steig heldur betur upp í liði Vals en hann skoraði 31 stig. Þá skoraði Kristinn Pálsson 17 stig fyrir Val.