Gamla ljósmyndin: Spítalaforstjórinn

Björn Zoëga.
Björn Zoëga. Einar Falur Ingólfsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Björn Zoëga er fyrir löngu orðinn þekktur í þjóðfélagsumræðunni á Íslandi enda var hann forstjóri Landspítalans frá 2010-2013 og síðar stjórnarformaður spítalans. Birni hefur einnig verið treyst fyrir mikilvægum störfum erlendis og var hann forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð sem kunnugt er. Í mars var tilkynnt að Björn myndi setjast í stjórn stærsta sjúkrahússins í Sádi-Arabíu. 

Ef til vill vita færri að Björn lék í nokkur ár í efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik. Björn lék með Val frá 1982 til 1990. Skoraði hann 6 stig að meðaltali í deildinni tímabilið 1984-1985 en mesta stigaskor hans í einum leik í deild var á Akureyri tímabilið 1989-1990 þegar hann skoraði 20 stig í sigri á Þór 112:102. 

Meðfylgjandi mynd tók Einar Falur Ingólfsson af Birni í leik ÍR og Vals í Seljaskóla tímabilið 1989-1990 þar sem hann sækir að körfu ÍR. 

Björn var kosinn formaður Knattspyrnufélagsins Vals árið 2014 og sagði því ekki alveg skilið við íþróttahreyfinguna. Hann var auk þess læknir íslenska liðsins í lokakeppni EM karla í körfuknattleik í Berlín 2015. 

Í dag ganga Íslendingar til kosninga og kjósa nýjan forseta. Í janúar var Björn einn þeirra sem sagður var í fjölmiðlum vera að íhuga framboð en sænska dagblaðið Dagens Nyheter birti í það minnsta frétt þess efnis. Björn sagðist þá í samtali við mbl.is ekki vera á leið í framboð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert