1,3 milljónir í landsliðsverkefni fyrir börnin

Kolbrún María Ármannsdóttir, dóttir Stefaníu, í leik með Stjörnunni á …
Kolbrún María Ármannsdóttir, dóttir Stefaníu, í leik með Stjörnunni á tímabilinu. mbl.is/Óttar Geirsson

Stefanía Helga Ásmundsdóttir á tvö börn í yngri landsliðum Íslands í körfubolta og hefur á þessu ári þurft að borga 1.366.000 krónur í kostnað á landsliðsverkefnum fyrir börnin sín.

Þau Kol­brún María Ár­manns­dóttir og Ás­mundur Múli Ármannsson hafa skarað fram úr í körfubolta og verið valin í yngrilandslið nokkrum sinnum.

„Þetta er mikill kostnaður og hefur bara hækkað frá ári til árs. Fyrir tveimur árum var ég líka með  tvö börn og þá borgaði ég 980 þúsund. Fyrir einu ári var ég bara með eitt barn og þá kom svona fjúkket” pínu,” sagði Stefanía í viðtali við mbl.is.

Kom upp að hætta við

Umræða hefur skapast um þann kostnað sem ungt íþróttafólk er að leggja út fyrir landsliðsverkefni í körfubolta.

Ég viðurkenni það að það kom alveg upp í ár hvort við ættum bara að hætta við en svo er þetta svo erfitt. Maður gleðst í senn að þau eru valin í landsliðið því það er alltaf stefnan hjá þessum ungu íþróttakrökkum, að spila fyrir Íslands hönd, en svo er maður bara í sjokki og fær tilfinningar sem maður vill ekki fá þegar barnið manns er valið til þess að spila fyrir Íslands hönd.

Þeim finnst þetta líka óþægilegt. Þau eru 16 og 17 ára og skilja alveg hvað 1.366.000 krónur er mikið fyrir foreldra.“

Ekki verið sameiginleg fjáröflun

Hefur körfuboltasambandið hjálpað ykkur við að skipuleggja fjáraflanir?

„Það hafa ekki verið fjáraflanir frá sambandinu og ekkert skipulag í kringum fjáraflanir. Hjá okkar félagi hefur ekki verið sameiginleg fjáröflun en Stjarnan styrkir hvern og einn einstakling um 20-30 þúsund fyrir ferð og Garðabær styrkir 20 þúsund. Það er það sem við fáum frá okkar nærsamfélagi í íþróttinni, “ sagði Stefanía en Kolbrún María og Ásmundur eru bæði leikmenn Stjörnunnar.

Ásmundur Múli Ármannsson er í meistaraflokki Stjörnunnar.
Ásmundur Múli Ármannsson er í meistaraflokki Stjörnunnar. Ljósmynd/Stjarnan körfubolti

Hvað finnst þér ásættanlegur kostnaður fyrir foreldra?

„Ég persónulega myndi alveg leggja 100-200 þúsund fyrir hverja ferð, mér finnst það bara hámark sem ég ætti að leggja fram. Samt sem áður finnst mér að við ættum ekki að þurfa að borga, þau eru að spila fyrir Íslands hönd, við eigum að hafa sóma okkar í því að styrkja þessi afreksbörn í hvaða íþrótt sem er. Það eru auðvitað fleiri sérsambönd í vandræðum með þetta, ekki bara KKÍ og við eigum bara að sjá sóma okkar í því að styrkja þessi börn.“

Hvaðan vilt þú fá fjármagn?

„Mér finnst að ríkið ætti að vera með ákveðin sjóð sem dekkar þessa hluti fyrir sérsamböndin. KSÍ er eina sambandið sem er nógu fjárhagslega sterkt til þess að láta landsliðskrakkana ekki greiða neitt en þau eru reyndar að spila á hærra "leveli" en landsliðin í körfubolta og öðrum íþróttum.

Ég vil að ríkið setji frá ákveðna upphæð á ári fyrir þessi börn í landsliðshópum. Það kemur fyrir að börn dragi sig úr landsliðsverkefnum vegna kostnaðar því þetta er gríðarlegur kostnaður fyrir fjölskyldur. Verðmiði upp á 1.300.066 krónur er ekki á færi hverra fjölskyldu að greiða. Ég hef heyrt af því undanfarin ár og það hefur verið þannig.“

Landsliðsfólk ekki eftirsóttur vinnukraftur

Eru þau að missa mikið úr vinnu vegna verkefna?

„Þetta er nú ekki eftirsóttur vinnukraftur svo það sé sagt. Þau fara á æfingar milli 16-18 og þá þarftu að hætta fyrr í vinnu sem er ekki vinsælt. Þau fara í viku eða tíu daga ferðir og fyrirtæki og annað slíkt eru að ráða sumarstarfsmenn fyrir afleysingar, en ekki að ráða einhvern sem getur varla verið í vinnu. Fjölmörg börn eru bara ekki í vinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert