Boston Celtics einum sigri frá titli

Jaylen Brown, leikmaður Boston, fer upp í skot í viðureign …
Jaylen Brown, leikmaður Boston, fer upp í skot í viðureign liðanna í Dallas í nótt. AFP/Stacy Revere

Boston Celtics er einum sigri frá meistaratitli í bandaríska körfuboltanum eftir 106:99 sigur á Dallas Mavericks í Dallas í nótt. 

Þetta var þriðji leikurinn í úrslitaviðureign liðanna í NBA og þriðji sigur Boston. Boston náði að því er virtist afgerandi 21 stigs forskoti í seinni hálfleik, en þá kom átta mínútna kafli þar sem liðið skoraði aðeins tvö stig og allt í einu var munurinn aðeins þrjú stig.

Þá fékk Luca Doncic, leikstjórnandi og lykilmaður Dallas, sína sjöttu villu og þurfti að yfirgefa völlinn og Boston tókst að kreista fram sigur á lokamínútunum.

Joe Mazzulla, þjálfari Boston, sagði eftir leik að sigurinn hefði helgast af því að sitt lið hefði haldið sig við leikáætlun sína þrátt fyrir að Dallas hefði sótt á undir lokin og á endanum sótt sigur á erfiðum útivelli.

Fyrir leikinn kom í ljós að miðherji Boston, Kristaps Porzingis, yrði ekki með vegna meiðsla, sem hann hlaut á ökkla í leik tvö, en það reyndist ekki koma að sök.

Dallas byrjaði leikinn sterkt og stemmingin í húsinu mögnuð. Kyrie Irving komst strax á blað þegar hann keyrði á körfuna og skoraði úr sniðskoti og hlýtur það að hafa verið góð tilfinning því að hann hitti ekki vel í fyrstu tveimur leikjum liðanna. Eftir tvær mínútur var staðan 9:2 fyrir Dallas og Celtics tóku leikhlé.

Kyrie Irving, leikmaður Dallas, svífur í átt að körfunni og …
Kyrie Irving, leikmaður Dallas, svífur í átt að körfunni og ætlar að leggja boltann ofan í hana. Leikmenn Boston, Jrue Holiday og Jaylen Brown, fylgjast hjálparlausir með. AFP/Stacy Revere

Dallas tókst að koma muninum upp í 13 stig í leikhlutanum og það var eins og Doncic og félagar ætluðu að valta yfir gestina, en leikmenn Celtics þéttu raðirnar og þegar honum lauk var munurinn kominn aftur niður í eitt stig, 31:30 fyrir Dallas.

Þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta komst Boston yfir í fyrsta skipti með körfu frá Jaylen Brown, staðan 31:32.

Það sem eftir lifði leihlutans skiptust liðin á að vera með forustu og í lok hans leiddi Dallas með einu stigi, staðan 51:50. Irving var frábær í fyrri hálfleik og skoraði 20 stig, það mesta sem hann hefur skorað í úrslitaseríunni gegn Boston, og hitti úr fjórum af fimm þriggja stiga tilraunum sínum í hálfleiknum. Doncic var með 17 stig þannig að samanlagt skoruðu bakverðirnir 37 stig af 51 stigi liðsins í fyrri hálfleik.

Tatum var stigahæstur hjá Boston í hálfleiknum með 20 stig.

Þriðji leikhlutinn var hins vegar eign Boston Celtics. Þriggja stiga skotin fóru að detta og liðið skoraði 35 stig gegn 19 stigum Dallas. Boston leiddi með 15 stigum þegar honum lauk, 70:85. Fjórði leikhlutinn hófst eins og þeim þriðja lauk. Áður en tvær mínútur voru liðnar af honum var munurinn orðinn 21 stig, staðan 91:70, og útlitið orðið svart fyrir heimamenn.

Þeir svöruðu hins vegar strax fyrir sig með 12 stigum í röð og minnkuðu muninn í 9 stig á þremur mínútum án þess að Boston næði að svara, staðan 91:82.

Luka Doncic, leikmaður Dallas, fékk sína sjöttu villu þegar rúmar …
Luka Doncic, leikmaður Dallas, fékk sína sjöttu villu þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir og munaði um það fyrir heimaliðið að hafa hann ekki inni á vellinum á lokamínútunum. AFP/Stacy Revere

Þegar fjórar mínútur voru eftir varð Dallas fyrir áfalli þegar Doncic fékk sína sjöttu villu. Jason Kidd, þjálfari Dallas, notaði rétt sinn til að fá dómnum breytt, en allt kom fyrir ekki og Doncic hafði lokið leik með 27 stig þegar munurinn var þrjú stig Boston í vil, 93:90.

Lokamínúturnar voru æsispennandi, en liðsmenn Boston héldu haus. Jaylen Brown, sem aðeins hafði skorað sex stig í fyrri hálfleik, fór í gang í þeim síðari og endaði með 30 stig. Tatum skoraði 31 stig.

Kyrie Irving skoraði 35 stig fyrir Dallas, en góð frammistaða hans dugði ekki til.

Tatum sagði eftir leikinn að enginn í liðinu liti svo á að nú væri hægt að slappa af eða slaka á. Hann sagði að menn vildu ekki vera sigurvissir, hvað sem gerðist í næsta leik á föstudag væri markmiðið að standa uppi sem sigurvegarar.

Tatum sagði að þeir hefðu byrjað leikinn af krafti og áhorfendur hefðu staðið við bakið á þeim og þá hefði Holiday hóað í liðið, sagt nokkur vel valin orð og þá hefði leikur liðsins róast og Boston komist aftur inn í leikinn. Það væri ljóst að öll lið kæmust á skrið og ættu sína spretti, en ef maður vildi verða meistari yrði maður að vera úrræðagóður á slíkum augnablikum og sú hefði verið raunin í leiknum.

Staðan í viðureigninni er nú 3:0 fyrir Boston. Það hefur aldrei gerst í sögu NBA að lið, sem lendir 3:0 undir, hafi á endanum unnið. Verði Boston Celtics meistari verður það 18. titill liðsins og færi liðið þá fram úr Los Angeles Lakers, sem er með 17 titla. Næsti leikur liðanna fer fram í Dallas á föstudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert