Hvalreki fyrir KR-inga

Þorvaldur Orri Árnason í leik með KR á þarsíðasta tímabili.
Þorvaldur Orri Árnason í leik með KR á þarsíðasta tímabili. mbl.is/Óttar Geirsson

Körfuknattleiksmaðurinn Þorvaldur Orri Árnason hefur samið við uppeldisfélag sitt KR um að leika með liðinu á næsta tímabili.

Þorvaldur Orri, sem er 21 árs, kemur frá Njarðvík þar sem hann lék á síðasta tímabili.

Er um gífurlegan liðstyrk að ræða fyrir nýliða KR í úrvalsdeildinni. KR vann 1. deildina á síðasta tímabili og stefnir ótrautt á að festa sig í sessi á meðal þeirra bestu á ný.

„Ég er mjög spenntur að vera kominn aftur heim í KR og geta hjálpað KR að komast aftur í fremstu röð. Ég tel þetta vera rétta skrefið í að þróast sem enn betri leikmaður og geta tekið minn leik á næsta [stig] sem og liðið sjálft næsta vetur,“ sagði Þorvaldur Orri í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild KR.

„Ég er gríðarlega ánægður að Þorri sé kominn aftur heim í KR. Það er mikilvægt að okkar uppöldu KR-ingar spili með félaginu og því er það stórt að Þorri spili með okkur á næsta tímabili.

Mér finnst Þorri hafa tekið miklum framförum seinustu tvö tímabil og hlakka ég til að aðstoða hann við að þróast enn frekar sem leikmaður og karakter og taka sinn leik á hærra [stig],“ sagði Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert