Dallas valtaði yfir Boston

Luka Doncic, leikmaður Dallas, tekur eitt af skotum sínum gegn …
Luka Doncic, leikmaður Dallas, tekur eitt af skotum sínum gegn Boston í nótt. Slóveninn var í stuði og skoraði að vild. AFP/Stacy Revere

Það var ljóst frá upphafi hvort liðið var með bakið upp við vegg þegar Dallas Mavericks og Boston Celtics mættust í fjórða leik liðanna í úrslitakeppni bandaríska körfuboltans í nótt. Boston þurfti á einum sigri að halda til að landa meistaratitlinum, en Dallas átti á hættu að tapa rimmunni án þess að vinna leik og það á heimavelli.

Boston sá aldrei til sólar í leiknum og þegar upp var staðið sigraði Dallas með 122 stigum gegn 84.

Eins og í leik þrjú byrjaði Dallas betur og náði strax forskoti. Að þessu sinni náðu leikmenn Boston hins vegar ekki að svara. Bæði Luka Doncic og Kyrie Irving virtust geta skorað að vild og þegar fyrsta leikhluta lauk var forskot Dallas 13 stig og hafði skorað 34 stig, það mesta sem liðið hafði skorað í einum leikhluta í allri seríunni gegn Boston. Celtics tókst aðeins að skora 21 stig í leikhlutanum.

Í viðtali milli leikhluta sagði Al Horford, leikmaður Boston, að Dallas væri mun ágengara liðið, enda meiri örvænting í leik þeirra. Boston yrði að herða sig til að komast inn í leikinn. Þau orð gengu ekki eftir. Leikmenn Dallas voru alltaf fljótari á boltann og fráköstuðu mun betur.

Boston reyndi að komast inn í leikinn með þriggja stiga skotum, oft langt fyrir utan þriggja stiga línuna, á meðan Dallas keyrði á körfuna með mun betri árangri. Þegar sex og hálf mínúta var eftir af öðrum leikhluta var munurinn orðinn 20 stig og  staðan 45:25. Boston hafði aðeins skorað fjögur stig í leikhlutanum.

Áfram hélt munurinn að aukast og var kominn í 52:28 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir og Boston tók leikhlé. Þá hafði frábær vörn Dallas orðið til þess að skotklukkan rann út í þann mund sem Horford tók þriggja stiga skot þannig að það taldi ekki þótt boltinn færi ofan í körfuna.

Kyrie Irving átti flottan leik fyrir Dallas gegn Boston í …
Kyrie Irving átti flottan leik fyrir Dallas gegn Boston í nótt. AFP/Stacy Revere

Í hálfleik var staðan 61:35 fyrir Dallas, sem er lægsta stigaskor Boston í einum hálfleik allt leiktímabilið.

Þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir af þriðja leikhluta var munurinn orðinn 36 stig og Mazzulla tók byrjunarliðið út af og setti bekkinn inn á, enda úrslitin löngu ráðin. Tveimur mínútum síðar tók Jason Kidd þá Doncic og Irving út af og staðan 92:57.  Doncic var með 29 stig og Irving 20 stig.

Jason Tatum skoraði aðeins 15 stig í leiknum og næstur kom Sam Hauser með 14 stig.

Mesta forskot Dallas í leiknum var 48 stig og er það mesta forskot í leik í úrslitum í 50 ár. Mesti munur milli liða var 42 stiga sigur Chicago Bulls á Utah Jazz í úrslitunum árið 1998, 96:54. Munurinn nú var 38 stig.

Fimmti leikur liðanna verður í Boston á sunnudag. Fjóra leiki þarf til að verða meistari. Boston þarf einn sigur í viðbót til að landa titli, en Dallas þarf að vinna þrjá í röð. Það hefur aldrei gerst í sögu NBA að lið, sem lendir undir þrjú núll, hafi orðið NBA-meistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert