Boston meistari í 18. sinn

Jayson Tatum fagnar eftir að hafa skorað körfu á móti …
Jayson Tatum fagnar eftir að hafa skorað körfu á móti Dallas. AFP/Elsa

Boston Celtics sigraði Dallas Mavericks í nótt með 106 stigum gegn 88 og er meistari í bandaríska körfuboltanum.  Boston sigraði Dallas í fimm leikjum, vann fyrstu þrjá leikina, tapaði þeim fjórða, en sigraði örugglega í þeim fimmta. Þetta er 18. titill Boston og hefur ekkert lið í NBA  unnið fleiri titla. 

Jaylen Brown var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitarimmunnar. Hann þakkaði liðinu öllu og einkum og sér í lagi samverkamanni sínum Jayson Tatum. Saman hafa þeir spilað 107 leiki í úrslitakeppni á ferlinum. Hann sagði að þeir félagarnir hefðu gengið í gegnum margt saman og þeir hefðu sannarlega unnið fyrir titlinum.

Jaylen Brown var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar og fékk í …
Jaylen Brown var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar og fékk í hendur bikar, sem kenndur er við Bill Russell. AFP/Adam Glanzman

Ljóst var að mikið var í húfi og gríðarleg stemming í troðfullum Boston Garden. Dallas varð vitaskuld að vinna leikinn til að halda sér á lífi í seríunni, en Boston var mikið í mun að þurfa ekki að fara aftur til Dallas, klára seríuna og landa átjánda meistaratitlinum á heimavelli.

Einnig var stór spurning hvernig Boston myndi bregðast við eftir eitt versta tap liðsins í úrslitakeppninni. Dallas vann þriðja leikinn með 38 stigum og var munurinn mestur 48 stig. Ekki leið þó á löngu áður en ljóst var að leikmenn Boston höfðu hrist tapið af sér.

Bæði lið hittu illa í upphafi leiks, en leikmenn Boston voru þó ívið einbeittari og ágengari og náðu forustu. Í lok leikhlutans skoruðu Celtics níu stig í röð án þess að Dallas næði að svara fyrir sig og komu muninum upp í tíu stig, staðan 28:18, og þakið að rifna af húsinu.

Luka Doncic hjá Dallas með boltann og Jrue Holiday til …
Luka Doncic hjá Dallas með boltann og Jrue Holiday til varnar. AFP/Elsa

Boston hélt áfram að herða tökin á leiknum í öðrum leikhluta. Jayson Tatum fór á kostum, lét sér ekki nægja að skora, heldur gaf hverja stoðsendinguna á eftir annarri. Hann var með níu stoðsendingar í fyrri hálfleik og jafnframt stigahæstur með 16 stig. 

Luka Doncic átti erfitt uppdráttar. Hann skoraði níu stig í leiklutanum og var með fjórar stoðsendingar. Það var hins vegar kannski meira áhyggjuefni fyrir Dallas að Kyrie Irving var aðeins með fimm stig í hálfleiknum.

Í lok leikhlutans skoraði Doncic körfu og fékk víti að auki. Vítið geigaði, Boston náði frákastinu og boltinn barst til Paytons Pritchards, sem driplaði upp að miðju og dúndraði boltanum af eigin vallarhelmingi í körfuna um leið og flautan gall, staðan 67:46 fyrir Boston í hálfleik. Ekki í fyrsta skipti, sem honum tekst slíkt sirkusskot í lok leikhluta í úrslitakeppninni. Hann skoraði einnig af miðjum velli í þriðja leikhluta í öðrum leik Boston gegn Dallas og stöðvaði með því áhlaup Doncic og félaga í þeim leik.

Jayson Tatum átti erfitt með að hemja tilfinningar sínar eftir …
Jayson Tatum átti erfitt með að hemja tilfinningar sínar eftir leikinn. AFP/Elsa

Snemma í þriðja leikhluta tókst Boston að koma muninum upp í 26 stig, en Dallas minnkaði muninn aftur í 17. Í lok þriðja leikhluta var Boston 19 stigum yfir, staðan 86:67, og hefði munurinn hæglega getað verið meiri því að heimamenn klikkuðu hvað eftir annað á auðveldum, opnum skotum.

Í fjórða leikhluta var eins og þreyta væri farin að segja til sín hjá báðum liðum. Í næstum þrjár mínútur tókst hvorugu liðinu að skora, en þá laumaði Jaylen Brown boltanum til Kristaps Porzingis undir körfunni og Lettinn tróð boltanum í körfuna, munurinn orðinn 21 stig.

Dallas tókst í raun aldrei að gera leikinn spennandi í síðasta leikhlutanum. Doncic lauk leik með 28 stig, 12 fráköst og fimm stoðsendingar og fór ekki í gang fyrir alvöru fyrr en úrslitin voru ráðin. Kyrie Irving átti erfiðan dag, skoraði 15 stig og var með níu stoðsendingar.

Tatum lauk leik með 31 stig, 11 stoðsedingar og átta fráköst. „Guð minn góður, okkur tókst það,“ sagði Tatum eftir leik. „Þetta er ótrúleg tilfinning, ég á ekki orð.“ 

Jaylen Brown skoraði 21 stig, var með átta fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Brown kom til Boston í nýliðavalinu 2016 og Tatum 2017. Báðir voru valdir númer þrjú í nýliðavalinu.

Al Horford, leikmaður Boston, hirðir frákast undir körfunni.
Al Horford, leikmaður Boston, hirðir frákast undir körfunni. AFP/Elsa

Al Horford er sá leikmaður Celtics, sem hefur þurft að bíða lengst eftir titli. Hann hefur verið 17 ár í deildinni og er 38 ára. Hann skoraði níu stig í nótt og tók níu fráköst. Kvaðst Tatum eftir leikinn ekki síst vera glaður hans vegna. „Ég trúi þessu ekki enn, þetta er alveg eins og ég ímyndaði mér þetta, með öllum okkar vinum, hér í Garðinum,“ sagði Horford eftir leikinn.

Joe Mazzulla, þjálfari Celtics, er 35 ára og yngsti þjálfarinn til að sigra í NBA síðan Bill Russel lék það afrek með Celtics árið 1969. 

Jrue Holiday er eini leikmaður Boston, sem hefur áður unnið titil. Það var með Milwaukee Bucks.

Boston var besta liðið í NBA-deildinni í vetur og tryggði sér heimarétt í úrslitakeppninni. Í henni tapaði liðið aðeins þremur leikjum, sigraði Miami Heat 4:1 í fyrstu umferð, Cleveland Cavaliers 4:1 í annarri umferð, Indiana 4:0 í úrslitum austurdeildar og nú Dallas 4:1. Alls spilaði Boston 101 leik á keppnistímabilinu, vann 80 og tapaði aðeins 21 leik.

Eins og áður sagði er þetta 18. titill Boston, sem er nú með einum fleiri en Los Angeles Lakers með sína 17 titla. Boston varð síðast meistari fyrir 16 árum upp á dag, 17. júní 2008, þegar Paul Pierce, Kevin Garnett og Ray Allen voru í aðalhlutverkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert