„Ég hef aldrei tjáð mig um þetta opinberlega“

„Stærsta ástæðan fyrir því að ég hef verið inn og út úr landsliðinu öll þessi ár er sú að mér finnst ég ekki vel nýttur í landsliðinu,“ sagði körfuknattleiksmaðurinn Kristófer Acox í Dagmálum.

Kristófer, sem er þrítugur, varð Íslandsmeistari með Val á dögunum eftir sigur gegn Grindavík í oddaleik í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins.

Líður illa í núverandi hlutverki

Kristófer á að baki 51 A-landsleik en hann hefur ekki verið í stóru hlutverki hjá landsliðinu undnfarin ár.

„Ég hef aldrei tjáð mig um þetta opinberlega en ég þarf nánast að þvinga sjálfan mig í það að taka þátt í landsliðsverkefnum því mér finnst ég nánast vera að eyða tímanum mínum í þetta,“ sagði Kristófer.

„Ég er miklu betri körfuboltamaður en ég var hjá KR og ég spila öðruvísi bolta en ég gerði. Það væri auðveldlega hægt að nota mig, í sama hlutverki og ég í hjá Val, með landsliðinu að mínu mati.

Ég er ekki að segja að ég eigi að vera stjarnan í liðinu eða neitt slíkt. Ég hef bara ekki áhuga á því að spila með liðinu í hlutverki sem mér líður illa í, það gerir ekkert fyrir hvorki mig né landsliðið,“ sagði Kristófer meðal annars.

Viðtalið við Kristófer í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Kristófer Acox.
Kristófer Acox. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert