Kristófer fékk sendar morðhótanir

„Þetta var fyrsta atvinnumannaliðið sem ég spilaði fyrir, hinum megin á hnettinum, og það var mjög erfitt,“ sagði körfuknattleiksmaðurinn Kristófer Acox í Dagmálum.

Kristófer, sem er þrítugur, varð Íslandsmeistari með Val á dögunum eftir sigur gegn Grindavík í oddaleik í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins.

Byrjaði vel

Kristófer gekk til liðs við Star Hotshots í efstu deild Filippseyja árið 2017 sem var hans fyrsta atvinnumannalið á ferlinum.

„Ég var eini erlendi leikmaðurinn í liðinu og fólk ætlaðist til þess að ég myndi skora 40 stig í hverjum leik og taka 30 fráköst, en ég hef aldrei verið þannig leikmaður,“ sagði Kristófer.

„Ég byrjaði vel en svo lentum við á vegg gegn liðinu sem endaði á að verða meistari. Ég gat ekki mikið í þeirri seríu og ég var jarðaður af öllum. Venjulega fær maður eitt eða tvö skilaboð eftir tapleik hérna heima þar sem maður er kallaður aumingi eða eitthvað en þarna var ég að fá hundruð skilaboða,“ sagði Kristófer.

Rústaði sjálfstraustinu

Hann lék með liðinu í tvo mánuði áður en hann sneri aftur heim til Íslands og samdi við uppeldisfélag sitt KR á nýjan leik.

„Það var búin til síða undir mínu nafni á Instagram þar sem var verið að drulla yfir mig. Fólk var að tala illa um mömmu mína og maður var það heimskur á þessum tíma að maður var endalaust að skoða þetta allt, sem fór svo beint í hausinn á mér. 

Þetta rústaði sjálfstraustinu hjá mér og það var gott að komast þaðan en það var samt gaman að fá að upplifa þennan tíma. Þegar ég kvaddi félagið þá sendi ég kveðju til allra stuðningsmannanna, líka til þeirra sem voru að senda mér morðhótanir, en ég var mjög feginn að komast aftur til Íslands,“ sagði Kristófer meðal annars.

Viðtalið við Kristófer í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Kristófer Acox.
Kristófer Acox. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert