Meistarinn með Boston missir af Ólympíuleikunum

Kristaps Porzingis í baráttu við Kyrie Irving í öðrum leik …
Kristaps Porzingis í baráttu við Kyrie Irving í öðrum leik Boston Celtics og Dallas Mavericks. AFP/Adam Glanzman

Kristaps Porzingis, nýkrýndur NBA-meistari í körfuknattleik með Boston Celtics, getur ekki leikið með Lettlandi á Ólympíuleikunum í París í sumar, komist liðið þangað.

Þetta er að sjálfsögðu mikið áfall fyrir lettneska liðið en Porzingis tók þátt í að tryggja Boston meistaratitilinn fyrr í þessum mánuði þegar félagið varð meistari í átjánda skipti.

Hann þarf að gangast undir uppskurð á vinstra fæti og í tilkynningu frá Boston Celtics í dag segir að hann hafi stefnt að því að fresta aðgerðinni fram yfir bæði úrslitakeppni NBA og Ólympíuleikana en meiðslin séu þess eðlis að hann gæti ekki spilað marga leiki á stuttum tíma eins og þarf á leikunum og í undankeppni þeirra.

Porzingis meiddist í öðrum úrslitaleik liðsins gegn Dallas, missti af næstu tveimur en spilaði fimmta og síðasta leikinn þegar Boston vann 106:88 og gulltryggði sér titilinn.

Lettland freistar þess að komast í körfuknattleikskeppni Ólympíuleikanna í fyrsta skipti frá árinu 1936 en liðið leikur í undanriðli með Georgíu, Filippseyjum, Brasilíu, Svartfjallalandi og Kamerún þar sem eitt liðanna kemst á leikana í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert