Snýr aftur til nýliða KR

Orri Hilmarsson og Jakob Örn Sigurðarson þjálfari KR.
Orri Hilmarsson og Jakob Örn Sigurðarson þjálfari KR. Ljósmynd/KR

Körfuknattleiksmaðurinn Orri Hilmarsson hefur samið við uppeldisfélag sitt KR um að leika með liðinu á næsta tímabili.

KR vann 1. deildina á síðasta tímabili og leikur því aftur á meðal þeirra bestu á komandi tímabili.

Orri, sem er 24 ára gamall, hefur leikið í bandaríska háskólaboltanum undanfarin fjögur tímabil; síðustu tvö tímabil með Webber-háskólanum í Flórídaríki en tvö tímabil þar á undan fyrir lið Cardinal Stritch-háskólans í Wisconsin-ríki.

Hann hóf meistaraflokksferilinn með KR tímabilið 2016-17, þá aðeins 16 ára gamall, og varð Íslandsmeistari með liðinu árin 2017, 2018 og 2019.

Orri lék með Fjölni í úrvalsdeildinni tímabilið 2019-20 áður en hann hélt til Bandaríkjanna og var á sínum tíma fastamaður í yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert