Stórleikur Kolbrúnar dugði Íslandi ekki

Kolbrún María Ármannsdóttir, dóttir Stefaníu, í leik með Stjörnunni á …
Kolbrún María Ármannsdóttir, dóttir Stefaníu, í leik með Stjörnunni á tímabilinu. mbl.is/Óttar Geirsson

U18 ára landslið Íslands í körfubolta kvenna mátti þola tap fyrir jafnöldrum sínum frá Danmörku, 76:69, í öðrum leik Norðurlandamótsins í Södertalje í Svíþjóð í dag. 

Ísland hefur nú tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum á mótinu en í gær tapaði liðið fyrir Eistlandi. 

Íslenska liðið leikur sinn þriðja leik af fimm á fimmtudaginn næstkomandi gegn Svíum. 

Ísland var tveimur stigum yfir í hálfleik, 39:37, en í seinni hálfleik var Danmörk sterkari aðilinn og vann að lokum sjö stiga sigur. 

Kolbrún María Ármannsdóttir skoraði 31 stig, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar fyrir Ísland. Jóhanna Ýr Ágústsdóttir var næststigahæst með 12 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert