Besta ákvörðun ævinnar að koma til Íslands

Jamil Abiad með deildarmeistaratitilinn sem karlalið Vals tryggði sér á …
Jamil Abiad með deildarmeistaratitilinn sem karlalið Vals tryggði sér á síðasta tímabili. Ljósmynd/Aðsend

„Landið er gullfallegt en ég á satt best að segja eftir að skoða mikið af því,“ sagði Kanadamaðurinn Jamil Abiad, þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik og aðstoðarþjálfari karlaliðsins.

Abiad hefur verið aðstoðarþjálfari karlaliðsins undanfarin tvö ár ásamt því að þjálfa yngri flokka og sinna einstaklingsþjálfun iðkenda á öllum aldri innan félagsins.

„Með þessa klikkuðu dagskrá í körfuboltanum í huga er stundum svolítið erfitt að finna fjóra til fimm tíma til þess að skreppa eitthvað út á land. Vonandi get ég einhvern tímann á næsta ári, sérstaklega þegar við fáum smá frí, ferðast og séð meira af landinu því mér finnst það svo fallegt.

Ég fæ vissulega að sjá hluta af því stundum þegar við ferðumst í leiki en ég myndi svo sannarlega vilja fá að upplifa aðeins meira af því sem landið sjálft hefur upp á að bjóða. Þegar við lítum til körfuboltans finnst mér landið alveg frábært.

Mér finnst deildin vera á góðum stað en persónulega finnst mér samt vera nokkrir hlutir sem gætu bætt hana, gert deildina samkeppnishæfari og betri fyrir leikmennina sem eru hérna,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Margrét Ósk Einarsdóttir, aðstoðarþjálfari kvennaliðsins, og Abiad.
Margrét Ósk Einarsdóttir, aðstoðarþjálfari kvennaliðsins, og Abiad. Ljósmynd/Valur

Margt annað en Bláa lónið og eldfjöllin

Í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í gær fór Abiad vel yfir þá hluti sem hann telur að mættu betur fara í því skyni að auka áhuga á og gæði í íslensku úrvalsdeildunum.

Þar nefndi Abiad til að mynda mikilvægi samfélagsmiðla þegar kemur að því að koma íslenskum körfubolta á framfæri.

„Ég tel þetta vera risastórt atriði en það er ekki nema einhver segi þér berum orðum frá Íslandi og hvað hér er að finna að fólk leiði hugann að landinu, því almennt er fólk ekki að leita hingað.

Ef þú skoðar landakort þá sérðu að Ísland er mjög afskekkt. Þá dettur manni það ekki til hugar hvernig samfélagið er samansett. Maður hugsar ekki út í það að veitingastaðirnir, landslagið og annað sé í raun meira Ameríkuvætt en fólk myndi halda.

Abiad með sýnikennslu fyrir iðkendur Vals á unglingsaldri á æfingu.
Abiad með sýnikennslu fyrir iðkendur Vals á unglingsaldri á æfingu. Ljósmynd/Aðsend

Miðbærinn, skemmtistaðirnir og allt annað hérna. Það tala allir ensku hérna. Utanaðkomandi myndu ekki vita af því.

Því finnst mér sem landið hafi upp á svo margt annað að bjóða en það sem fólk veit af. Það fyrsta sem fólk sem vill koma hingað nefnir er Bláa lónið, eldfjöllin eða hvað sem það er. En það er svo margt annað í boði,“ sagði hann.

Hitti herramann sem er skyldur K þjálfara

Upplifun Abiads af Íslandi hefur að hans sögn verið einkar góð. En hvernig atvikaðist það að kanadíski þjálfarinn endaði á Íslandi?

„Þannig er mál með vexti að ég stýri oft æfingabúðum og námskeiðum í Kanada og annars staðar í Norður-Ameríku. Ég hafði líka verið að ferðast til Afríku í þrjú ár, rétt áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Þar hef ég unnið með þjálfurum sem hafa unnið í NBA-deildinni.

Ég hef verið að sinna slíkri vinnu og ég hitti mann sem ég vann með í æfingabúðum í Gabon. Við vorum staddir þar til þess að reyna að finna leikmenn sem gætu átt möguleika á að fá skólastyrk í Bandaríkjunum og vonandi komast síðar í NBA-deildina hefðu þeir getu til þess.

Justas Tamulis og Abiad ræða saman.
Justas Tamulis og Abiad ræða saman. Ljósmynd/Aðsend

Þar hitti ég herramann sem er skyldur K þjálfara [Mike Krzyzewski, fyrrverandi þjálfari bandaríska karlalandsliðsins], sem þjálfaði karlalið Duke-háskólans. Þjálfari sem er frekar vel þekktur hér á landi, Gústi [Ágúst Björgvinsson], heimsækir Duke-háskólann á hverju sumri og er satt að segja þar um þessar mundir.

Hann hitti manninn sem ég vann með í Afríku. Ég held að honum hafi upphaflega verið boðið starfið sem ég fékk. Hann er eldri maður, á sjötugsaldri. Hann sagði við mig að miðað við hvar hann væri staddur í lífi sínu núna yrði það svolítið stórt stökk fyrir hann að koma hingað og vera hérna í heilt tímabil,“ útskýrði Abiad.

Getur leitt þig út um allan heim

Hann hélt áfram:

„Gústi spurði manninn að því hvort hann þekkti einhvern sem gæti hentað vel fyrir þetta starf. Að þjálfa, vinna með krökkum og hjálpa einnig karlaliðinu. Craig, sem er nafn mannsins, sagði við Gústa: „Ég held að ég sé með rétta manninn fyrir þig.“

Gústi setti sig í samband við mig. Á þeim tímapunkti var ég með mínar eigin körfuboltabúðir í Kanada, sem ég stjórna. Ég varð því að ganga úr skugga um hvort þetta væri mögulegt fyrir mig.

Ég ræddi við fjölskylduna mína, vini og aðra þjálfara sem ég þekki í Ottawa-borg og þau sögðu mér að þetta væri tækifæri: „Þú ert ekki giftur, þú átt ekki börn. Farðu bara. Settu allt til hliðar og farðu. Þetta verður bara eitt ár, þú getur séð hvað gerist og þú veist ekki hvert þetta leiðir þig.“

Abiad og Kristinn Pálsson á æfingu.
Abiad og Kristinn Pálsson á æfingu. Ljósmynd/Aðsend

Ég held að ég hafi tekið bestu ákvörðun ævi minnar þegar ég ákvað að stökkva á þetta tækifæri. Ég er þakklátur fyrir þau tengsl sem ég hef náð að mynda. Mér finnst sem tengslamyndun sé gífurlega mikilvæg í körfubolta. Veröldin er stór en í körfubolta er hún í raun mjög lítil.

Það er klikkað hvernig ein manneskja getur leitt þig til þeirrar næstu. Frá einni manneskju til annarrar getur hún leitt þig út um allan heim. Ég hef verið mjög lánsamur og ég hugsa að ég hafi endað í bestu mögulegu aðstæðum sem ég hefði getað komist í.

Líka það að vera hjá Val. Ég hefði getað endað hjá hvaða félagi sem er á landinu og hver veit hvað hefði gerst þá? Ég er mjög lánsamur að vera umkringdur fólki sem hugsar mjög svipað og ég og vilja að íþróttin haldi áfram að vaxa og dafna í landinu. Ég hef verið mjög heppinn að vera í kringum svona góðan hóp fólks.“

Abiad og Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari karlaliðs Vals, með Íslandsmeistarabikarinn …
Abiad og Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari karlaliðs Vals, með Íslandsmeistarabikarinn í vor. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert