Fjórði tapleikurinn í röð

Magní Þór Grissom var stigahæstur í liði Íslands.
Magní Þór Grissom var stigahæstur í liði Íslands. Ljósmynd/YouTube

Íslenska drengjalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri mátti sætta sig við fjórða tap sitt í jafnmörgum leikjum þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Finnlandi, 78:90, á Norðurlandamótinu í Södertälje í Svíþjóð í dag.

Síðasti leikur íslenska liðsins á mótinu er gegn Noregi í fyrramálið en Finnland hefur nú unnið alla fjóra leiki sína á Norðurlandamótinu.

Ísland var með undirtökin í fyrri hálfleik og náði mest 12 stiga forystu í honum. Var íslenska liðið níu stigum yfir, 52:43, að fyrri hálfleik loknum.

Í síðari hálfleik saxaði Finnland jafnt og þétt á forystu Íslands, sem var enn yfir, 67:62, að loknum þriðja leikhluta.

Strax í upphafi fjórða leikhluta náði Finnland hins vegar að jafna metin i 67:67, tók í kjölfarið leikinn yfir og vann að lokum nokkuð þægilegan tólf stiga sigur.

Magni Þór Grissom var stigahæstur í íslenska liðinu með 24 stig. Thor, eins og hann er jafnan kallaður, er búsettur í Bandaríkjunum og á íslenska móður og bandarískan föður, Davíð Alan Grissom, sem spilaði lengi hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert