Ótrúlegur sigur íslensku stúlknanna

Íslenska U20 ára landsliðið sem leikur í Búlgaríu.
Íslenska U20 ára landsliðið sem leikur í Búlgaríu. Ljósmynd/KKÍ

Kvennalandslið Íslands í körfuknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, vann ótrúlegan sigur á Írlandi í B-deild Evrópumótsins í Búlgaríu í dag, 88:45, og komst með því í undanúrslit deildarinnar.

Eftir töp gegn Úkraínu og Tékklandi í milliriðli varð íslenska liðið að vinna Íra með minnst 20 stiga mun en írska liðið hafði sigrað Úkraínu með 13 stigum.

Íslensku stúlkurnar stungu þær írsku gjörsamlega af í öðrum leikhluta þegar þær komust í 45:22 og voru þá þegar búnar að vinna upp forskotið sem þær þurftu.

Í seinni hálfleik gáfu þær enn frekar í, staðan var 66:36 eftir þriðja leikhluta og í þeim síðasta gengu þær endanlega frá leiknum. lokatölur urðu 88:45 og ótrúlegur 43 stiga sigur í höfn.

Agnes María Svansdóttir skoraði 26 stig, Eva Elíasdóttir skoraði 22 og tók 8 fráköst og Anna Vignisdóttir skoraði 12 stig.

Það verða því Tékkland, Ísland, Holland og Belgía sem leika í fjögurra liða úrslitunum og spila um sæti í A-deild Evrópumótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert