Laskað lið Íslands spilar um sæti í A-deild

Anna Lára Vignisdóttir með boltann í kvöld.
Anna Lára Vignisdóttir með boltann í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri mátti þola tap gegn Belgíu, 87:51, í undanúrslitum B-deild Evrópumótsins í Sófíu í Búlgaríu í dag.

Nokkuð vantaði í íslenska liðið vegna veikinda en matareitrun hefur herjað á liðið undanfarna daga. Vegna fjarveru fjögurra leikmanna voru aðeins átta leikmenn skráðir á leikskýrslu. 

Þrátt fyrir að belgíska liðið dvelji á sama hóteli hefur það sloppið vel og reyndust þær belgísku of sterkar í kvöld.

Eva Wium Elíasdóttir úr Þór frá Akureyri skoraði 11 stig fyrir Ísland, Anna Lára Vignisdóttir úr Keflavík gerði tíu og Sara Líf Boama leikmaður Vals gerði níu.

Ísland leikur um þriðja sætið við Tékkland á morgun og það er hreinn úrslitaleikur um sæti í A-deildinni. Belgía leikur úrslitaleik B-deildar við grannanna í Hollandi en bæði lið hafa unnið sér sæti í A-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert