Glæsilegt svar íslensku strákana

Almarr Orri Atlason, fyrir miðju, var stigahæstur í liði Íslands …
Almarr Orri Atlason, fyrir miðju, var stigahæstur í liði Íslands í dag.

Ísland vann stóran sigur á Svartfjallalandi í A-deild Evrópumóts U20 ára landsliða karla í körfubolta í dag. Lokatölur urðu 71:53 í Gdynia í Póllandi.  

Svartfjallaland byrjaði viðureignina betur og leiddi 27:14 eftir fyrsta leikhluta. Íslenska liðið fann betri takt í kjölfarið og var staðan í hálfleik, 41:38 fyrir Svartfjallalandi.   

Ísland var með mikla yfirburði í síðari hálfleik en Svartfjallaland gerði aðeins 12 stig á móti 33 stigum íslenska landsliðsins.  

Almarr Orri Atlason átti erfitt uppdráttar í gær í tapi liðsins gegn Litháen en var stigahæstur í dag með 23 stig auk þess að taka 5 fráköst og gefa 3 stoðsendingar.  

Tómas Valur Þrastarson var næst stigahæstur í íslenska liðinu en hann setti niður 14 stig og tók 7 fráköst. Elías Bjarki Pálsson gerði 10 stig og tók 5 fráköst. Daníel Ágúst Halldórsson átti einnig frábæran leik en hann gaf 9 stoðsendingar og tók 6 fráköst 

Ísland mætir Slóveníu klukkan 11 á morgun í síðasta leik D-riðilsins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert