Penninn á lofti í Njarðvík

Sigurbergur Ísaksson, Sigurður Magnússon, Patrik Joe Birmingham, Guðmundur Aron Jóhannesson …
Sigurbergur Ísaksson, Sigurður Magnússon, Patrik Joe Birmingham, Guðmundur Aron Jóhannesson og Brynjar Kári Gunnarsson. Ljósmynd/UMF Njarðvík

Njarðvík skrifaði undir samning við fimm leikmenn fyrir komandi tímabil í úrvalsdeild karla í körfubolta.

Þeir Sigurbergur Ísaksson, Sigurður Magnússon og Patrik Joe Birmingham eru uppaldir í félaginu en ásamt þeim skrifuðu Guðmundur Aron Jóhannesson og Brynjar Kári Gunnarsson undir hjá Njarðvík en þeir komu frá Fjölni. 

Njarðvík datt úr leik gegn Val í undanúrslitum eftir spennandi einvígi á síðasta tímabili. Bene­dikt Guðmunds­son, hætti sem þjálfari liðsins eftir tímabilið og Rúnar Ingi Erlingsson tók við liðinu.

„Hér eru á ferðinni fimm ungir og öflugir leikmenn sem Njarðvík bindur vonir við til framtíðar. Það er vissulega spennandi að fá til félagsins unga og efnilega stráka eins og Guðmund og Brynjar en hér fá þeir frábært tækifæri til þess að efla sína kunnáttu og taka næsta skref á sínum ferli. Sigurður og Sigurbergur eru miklir félagsmenn og hafa líka látið til sín taka í þjálfun á vegum félagsins og Patrik að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Það er ekki bara spennandi að vinna með þessum peyjum því ég skynja það líka á þeim að okkar framtíðarleikmenn eru einnig spenntir fyrir því að taka í notkun nýja og glæsilega Stapagryfju á næstunni,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari liðsins, í tilkynningu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert