Forðaði Bandaríkjunum frá niðurlægingu (myndskeið)

LeBron James á fullu í leik með landsliði Bandaríkjanna.
LeBron James á fullu í leik með landsliði Bandaríkjanna. AFP/Giuseppe Cacace

LeBron James forðaði bandaríska landsliðinu í körfuknattleik frá einstaklega óvæntum ósigri í gærkvöld þegar hann skoraði sigurkörfuna á síðustu sekúndu gegn landsliði Suður-Súdan.

Þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í O2-höllinni í London í gærkvöld en lið Suður-Súdan hefur komið gríðarlega á óvart og verður á meðal þátttökuliða á Ólympíuleikunum í París sem hefjast næsta föstudag.

Staðan var 100:99, Suður-Súdan í hag, þegar hinn 39 ára gamli LeBron James braust í gegnum vörn Afríkuliðsins og skoraði sigurkörfuna í leiknum.

Suður-Súdan náði sextán stiga forystu á kafla í leiknum og allt stefndi í einhver óvæntustu úrslit körfuboltasögunnar þegar LeBron tók til sinna ráða.

Hann skoraði 25 stig í leiknum og var sérstaklega öflugur þegar bandaríska liðið var að vinna upp forskot spútnikliðsins frá landinu stríðshrjáða. 

Flestir leikmanna Suður-Súdans eru afkomendur flóttafólks frá landinu og eru búsettir í Norður-Ameríku og Ástralíu.

Bandaríkin og Suður-Súdan eru saman í riðli í körfuknattleikskeppni Ólympíuleikanna en með þeim í riðli eru Serbía og Púertó Ríkó. Riðlakeppnin er spiluð í Lille og úrslitaleikirnir í París.

Sigurkörfu LeBrons má sjá hér í myndskeiðinu:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert