Merkilegur áfangi íslenska liðsins

Íslenska liðið hélt sér í A-deildinni með glæsibrag.
Íslenska liðið hélt sér í A-deildinni með glæsibrag. Ljósmynd/KKÍ

Íslenska U20 ára karlalandsliðið í körfubolta verður í A-deild Evrópumótsins áfram eftir sigur á Tyrklandi með minnsta mun, 96:95, í leiknum um 13. sætið í Gdynia í Póllandi í dag. 

Ísland hafnar þar með í 13. sæti en neðstu þrjú liðin falla niður í B-deildina. Tyrkir fara þangað ásamt Norður-Makedóníu og Svartfjallalandi. 

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem íslenska liðið er þrjú ár í röð í A-deild Evrópumótsins.

Kaflaskiptur leikur

Íslenska liðið byrjaði leikinn betur og var sex stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 24:18. 

Annar leikhluti var hins vegar í eigu Tyrkja sem fóru tveimur stigum yfir til búningsklefa, 38:36. 

Ísland kom virkilega vel inn í fjórða leikhlutann, vann hann með tíu stigum og var átta stigum yfir fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 68:60. 

Tyrkir reyndu hvað þeir gátu að komast til baka í fjórða leikhluta og voru lokamínúturnar nokkuð spennandi. 

Að lokum hafði íslenska liðið betur með einu stigi. 

Stórleikur margra

Tómas Valur Þrastarson átti frábæran leik fyrir Ísland en hann skoraði 26 stig, tók fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar. 

Ágúst Goði Kjartansson skoraði 22 stig, tók þrjú fráköst og gaf sjö stoðsendingar. 

Þá skoraði Almar Atlason 21 stig og tók 13 fráköst. Hann gaf einnig tvær stoðsendingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert