Hávaxnir fánaberar í París

LeBron James verður í stóru hlutverki á föstudagskvöldið.
LeBron James verður í stóru hlutverki á föstudagskvöldið. AFP/Giuseppe Cacace

Tveir af þekktustu körfuboltamönnum heims munu taka þátt í setningarathöfn Ólympíuleikanna í París á föstudagskvöldið með því að bera fána sinna þjóða inn á ólympíusvæðið á bökkum árinnar Signu.

LeBron James, leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni, sem verður fertugur fyrir áramótin, verður annar fánabera bandaríska ólympíuliðsins en tilkynnt verður á morgun hvaða íþróttakona verður hinn fánaberi þjóðarinnar.

„Þetta er ótrúlegur heiður. Íþróttir hafa kraftinn til að sameina okkur öll og ég er stoltur af því að taka þátt í þessari mikilvægu athöfn," sagði LeBron í fréttatilkynningu frá bandaríska ólympíusambandinu.

Giannis Antetokounmpo, leikmaður Milwaukee Bucks og einn af bestu leikmönnum NBA-deildarinnar, verður annar fánabera Grikklands. Hann hefur tvisvar verið valinn besti leikmaður deildarinnar og varð meistari með Milwaukee árið 2021.

Kapparnir tveir eru með hávaxnari mönnum og ættu því að verða áberandi í athöfninni en Giannis er 2,11 metrar á hæð og LeBron 2,06 metrar.

Giannis Antetokoumpo verður annar fánabera Grikkja.
Giannis Antetokoumpo verður annar fánabera Grikkja. AFP/Aris Messinis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert