Bandaríkjamaðurinn Nimrod Hilliard IV mun spila fyrir KR í úrvalsdeild karla í körfubolta á næstu leiktíð. Hilliard var lykilmaður í KR liðinu sem vann 1. deild karla á síðustu leiktíð.
Hilliard gekk til liðs við Vesturbæjarliðið í janúar og spilaði feykivel. Hilliard skoraði 23,7 stig að meðaltali og gaf 7,3 stoðsendingar en hann á að baki langan atvinnumannaferil í Þýskalandi, Ungverjalandi, Kýpur, Danmörku og Svíþjóð samkvæmt fréttatilkynningu KR.
„Ég er gríðarlega ánægður með að Nim komi aftur í KR og sýnir það hversu vel honum leið hjá okkur,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, um endurkomu Hilliard.