Ísland sigraði toppliðið

Kristófer Breki Björgvinsson í leiknum í dag.
Kristófer Breki Björgvinsson í leiknum í dag. Ljósmynd/FIBA

Strákarnir í íslenska U18 landsliðinu sigruðu Ungverjaland, 77:70, í hörkuleik í B-deild á Evrópumótinu í körfubolta í lokaleik riðlakeppninnar í Skopje í Norður-Makedóníu í dag eftir framlengdan leik.

Ísland endaði með sex stig úr fimm leikjum í B-riðlinum en það fer eftir öðrum leikjum í hvaða sæti liðið endar í riðlinum en það er sem stendur í þriðja sæti. Fyrir leikinn var Ungverjaland á toppi deildarinnar en nú geta Sviss og Pólland komist yfir með sigri í dag en efstu tvö liðin fara í keppni um sæti í A-deild og næstu tvö í keppni um sæti níu til sextán.

Ísland var yfir undir lok leiks en Ungverjar jöfnuðu metin í 66:66 og knúðu fram framlengingu. Ísland var með yfirburði í framlengingunni og komst í 75:66 í upphafi hennar eftir slaka byrjun Ungverja, Ungverjar skoruðu þó tvær körfur í röð og minnkuðu muninn en það dugði ekki til og leikurinn endaði 77:70 fyrir Íslandi.

Kristófer Breki Björgvinsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 21 stig, á eftir honum voru Ásmundur Múli Ármannsson með 15 stig og þeir Viktor Jónas Lúðvíksson og Magni Þór Grissom með 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert